2.623 börn og unglingar á aldrinum 6-17 ára nutu góðs af frístundastyrk Akureyrarbæjar árið 2022 eða tæplega 82% þeirra sem áttu rétt á styrknum, sem er aukning frá fyrri árum.
Frístundastyrkur Akureyrarbæjar nam 40.000 krónum á hvern iðkanda árið 2022. Í heildina var 100 milljónum króna varið í frístundastyrki í 3.479 skráningum sem jafngildir styrk upp á 38.114 krónur að meðaltali á hvern iðkanda.
Kynjahlutfall skráninga var hér um bil jafnt, 49,5% drengir og 50,5% stúlkur. Flestar skráningar, eða tæplega 37%, voru hjá íþróttafélaginu Þór og Knattspyrnufélagi Akureyrar. Samstarfsaðilar (íþrótta-, æskulýðs og tómstundafélög auk fyrirtækja) sem tóku við frístundastyrk 2022 voru þrjátíu og fjórir.
Markmið með frístundastyrk Akureyrarbæjar er að styrkja börn og unglinga til þátttöku í uppbyggilegu frístundastarfi og auka möguleika til þátttöku óháð efnahag. Einnig að ýta undir aukna hreyfingu, virkni og félagsþátttöku sem og að vinna gegn óæskilegu brottfalli í eldri aldurshópum iðkenda.
Frístundastyrkur Akureyrbæjar árið 2023 er 45.000 krónur og gildir fyrir öll börn fædd árið 2006 til og með árinu 2017.
Nánari upplýsingar um frístundastyrk Akureyrarbæjar.