Lestrarhilla í Oddeyrarskóla

Svokölluð "lestrarhilla" var vígð við mikinn fögnuð nemenda, kennara og gesta í Oddeyrarskóla í morgun, á degi íslenskrar tungu. Hillan er í fimm hlutum og myndar orðið "LESTU". Í hana er raðað bókum við hæfi grunnskólakrakka og þeir hvattir til að taka sér bók í hönd og fara að lesa.

Hugmyndin kom upphaflega frá Svönu Dan fyrrverandi aðstoðarskólastjóra í Oddeyrarskóla sem hafði rekist á myndir af samskonar lestrarhillu sem myndaði orðið "READ" á veraldarvefnum og datt í hug að gaman væri að færa þetta yfir á íslensku. Fólkið í skólanum tók hugmyndinni opnum örmum og nú er hún sem sagt orðin að veruleika í anddyri skólans þar sem hún blasir við öllum sem inn koma.

Ýmsir aðilar gáfu vinnu sína eða styrktu framtakið með öðrum hætti og má nefna að foreldri við skólann safnaði 200.000 kr. til bókakaupa frá foreldrum barna við skólann og útskriftarnemar söfnuðu fé svo hægt væri að smíða hilluna.

Meðfylgjandi myndir voru teknar við hátíðarhöld og vígslu hillunnar á degi íslenskrar tungu í morgun. Þar voru flutt ávörp og nemendur buðu upp á alls kyns skemmtiatriði með leik og söng.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan