Ungmennaráð fundar með ráðherra og frambjóðendum

Ungmennaráðið með Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra.
Ungmennaráðið með Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra.

Ungmennaráð Akureyrar hefur nýverið fundað bæði með mennta- og barnamálaráðherra og framboðum til sveitarstjórnar fyrir komandi kosningar.

Í síðustu viku bauð ráðið til sín fulltrúum allra lista sem bjóða fram á Akureyri í sveitarstjórnakosningunum 14. maí nk. Hvert framboð fékk fimm mínútur til að svara fyrirfram gefnum spurningum frá ráðinu. Þá fengu frambjóðendur kynningu á merkingarbærri þátttöku barna og ungmenna, ungmennaráði og barnvænu sveitarfélagi. Að síðustu var opin umræða á milli ráðsins og frambjóðenda þar sem bar meðal annars á góma lækkun kosningaaldurs, lýðræðisþátttaka barna og ungmenna á sveitarstjórnastiginu, seinkun á byrjun grunnskólans á morgnana fyrir unglingastigið, tækni- og fjármálalæsi barna og ungmenna, og aðgengi að nefndum bæjarins.

Í gær fékk ungmennaráðið síðan Ásmund Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, á sinn fund. Ráðherrann var upplýstur um starf ráðsins og hvernig það hefur þróast á síðustu misserum. Á fundinum fór fram hreinskiptið samtal um áhrif, áhuga og lýðræðisþátttöku barna og ungmenna almennt. Ráðið kom með athugasemdir um hvernig bæta megi úr valdaójafnvægi þar sem fullorðnir og börn mætast á viðburðum sem eiga að fela í sér merkingarbæra þátttöku barna og ungmenna. Ráðherra hvatti ráðið til dáða og undirstrikaði að horft væri til ungmennaráðs Akureyrar sem fyrirmyndar um virkni og lýðræðisþátttöku barna og ungmenna á sveitarstjórnarstiginu.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan