Fatasóun

rauði krossMikil ofneysla er á fatnaði í heiminum í dag. Framleiðsla á fatnaði er óumhverfisvæn sem og flutningurinn. Framleiðsla á aðeins einum bómullar stuttermabol þarfnast tæplega 2.700 lítra af vatni en það er sama magn og meðal maður drekkur á 900 dögum. Áburðarnotkun á bómullarplöntur er jafnframt ein sú mesta sem gerist í landbúnaði. Auk þess þarf ýmis eiturefni og vatn til að lita flíkina.

Árið 2016 hentu Íslendingar rúmum 5.700 tonnum af textíl og skóm, þ.e. að meðaltali 15 kg á hvern Íslending. Það er jafnframt nærri tvöfalt meira magn en fjórum árum áður. Samkvæmt Umhverfisstofnun fara 60% af vefnaðarvöru á Íslandi í ruslið og 40% fara í endurnýtingu eða endurvinnslu.

Langstærsti hlutinn af textílnum sem safnast í fatasöfnun Rauða Krossins er sendur í flokkunarstöðvar erlendis. Árið 2018 sendi Rauði krossinn 3.000 tonn af textíl erlendis en það eru um 230, fjörtíu feta gámar, á hverju ári. Hver Íslendingur kaupir þrisvar sinnum meira af vefnaðarvöru en meðal-jarðarbúi eða um 17 kg árlega. 

Hvað getum við gert?

Endurnotkun er lang besti kosturinn til að koma í veg fyrir neikvæð umhverfisáhrif textíls. Endurvinnsla er betri en förgun en ávinningurinn er þó smávægilegur í samanburði við endurnotkun. Til að draga úr sóun þarf að draga úr kaupum. Við þurfum að hætta að kaupa föt sem við þurfum ekki og aldrei henda fötum eða öðrum textílvörum. Við þurfum að nota þau aftur og aftur og ef við getum það ekki þurfum við að koma þeim til annarra sem gætu nýtt þau eða fara með þau í gáma Rauða krossins. Rauði krossinn tekur á móti öllum textílvörum, líka stökum sokkum og götóttum nærbuxum.

Það sem við getum gert er fyrst og fremst að nýta fötin sem við eigum nú þegar betur og þegar við kaupum föt skulu þau vera endingarbetri bæði hvað varðar gæði og hönnun, við getum fengið lánað og/eða gefins föt sem aðrir eru hættir að nota sem og gefið föt til annarra sem við erum hætt að nota.