Mannréttindastefna Akureyrarbæjar 2023-2027

English version

1. Grundvöllur mannréttindastefnu Akureyrarbæjar

Lýðræðislegt samfélag byggir á því að allt fólk sé jafnt fyrir lögum og njóti mannréttinda. Mannréttindi leggja grunn að velferð einstaklinga, fjölskyldna, atvinnulífs og samfélagsins alls. Mannréttindi eru varin í stjórnarskrá Íslands, mannréttindasáttmálum og yfirlýsingum.

Mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar, alþjóðlegir sáttmálar og núgildandi lög eru lögð til grundvallar í mannréttindastefnu Akureyrarbæjar[1] og tekur hún mið af útvíkkun jafnréttishugtaksins og er heildstæð mannréttindastefna sem hefur þann tilgang að tryggja vernd allra íbúa.[2]

Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 er m.a. lagt bann við fjölþættri mismunun á grundvelli fleiri en einnar mismununarástæðu sem nýtur verndar samkvæmt lögunum og lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018 og lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018. Þá er það nýmæli að að opinberir aðilar skulu leitast við að greina milli kynja við alla tölfræðivinnslu nema sérstakar ástæður, svo sem persónuverndarhagsmunir, mæli gegn því.

Stefnan grundvallast á eftirfarandi lögum:

 • Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020
 • Lög um jafna meðferð á vinnumarkaði nr. 86/2018
 • Lög um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna nr. 85/2018

Á grundvelli laga nr. 86/2018 tryggir stefnan jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Stefnan tryggir einnig á grundvelli laga nr. 85/2018 jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna utan vinnumarkaðar.

Fjölbreytni, jöfn meðferð og vernd gegn mismunun í víðum skilningi er yfirskrift mannréttindastefnu Akureyrarbæjar. Verkefni samfélagsins er að fyrirbyggja með skýrum hætti mismunun hvers konar, ekki síst margþætta mismunun og útfæra leiðir til að festa betur í sessi þekkingu, skilning og sýn sem tryggir og einkennir gott samfélag fyrir alla.

Akureyrarbær hefur skyldur sem vinnuveitandi samkvæmt þeim lögum sem þessi stefna byggir á og ber því að gera í mannréttindastefnu sérstaklega grein fyrir hvernig vinna skal að kynjajafnrétti (lög nr. 150/2020) og jafnri meðferð (lög nr. 86/2018) einstaklinga á vinnumarkaði. Með skýru banni við mismunun utan vinnumarkaðar (lög nr. 85/2018) er horft til þess að stuðla að virkri þátttöku sem flestra í íslensku samfélagi óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og koma í veg fyrir félagslega einangrun einstaklinga af sömu ástæðum. Sérstakar kröfur eru einnig gerðar til sveitarfélagsins vegna skólastarfs og íþrótta- og tómstundastarfs og tekur mannréttindastefnan mið af því. Mannréttindi barna eru tryggð hjá Akureyrarbæ gegnum markmið og aðgerðir sem vottað Barnvænt sveitarfélag.

Kröfur eru gerðar til sveitarfélaga að unnið skuli að kynjasamþættingu[3] á öllum sviðum og að aðgerðaráætlun tilgreini hvernig leiðrétta skuli mismun á stöðu milli kynja innan sveitarfélagsins. Reynsla og gildismat allra samfélagshópa eru lýðræðinu mikilvæg og því er eðlilegt að stuðla að breiðri þátttöku í stefnumótun og ákvarðanatöku og að sjónarmiðum og þörfum allra hópa sé gert jafn hátt undir höfði.

Yfirmarkmið stefnunnar skiptast í þau fjögur meginsvið sem bæjaryfirvöld skuldbinda sig til að vinna að mannréttindum og endurspegla margþætt hlutverk og skyldur sveitarfélagsins sem stjórnvalds, sem vinnuveitanda, sem veitanda þjónustu og sem samstarfsaðila og verkkaupa. Í aðgerðaráætlun er gerð grein fyrir aðgerð, ábyrgðaraðila og tímaramma.

1.1 Akureyrarbær sem stjórnvald

Akureyrarbær sem stjórnvald skal tryggja jafna stöðu og jafnan rétt allra bæjarbúa. Bæjaryfirvöld horfa til þess að bregðast við ef sýnt þykir að verulega muni halla á einhverja mismununarbreytu með ákveðinni ákvörðun og metur hvaða áhrif ákvarðanir muni hafa á líf ólíkra hópa. Mannréttindasjónarmið skulu samþætt ráðstöfun og tekjuöflun Akureyrarbæjar og ávallt skal tryggja að teknar séu upplýstar ákvarðanir við nýtingu fjármuna í samræmi við ólíkar þarfir einstaklinga í fjölbreyttu samfélagi. Akureyrarbær skal leitast við að hafa bæjarbúa með í ráðum og hvetja þá til lýðræðislegrar þátttöku í málefnum sem snerta þá á einn eða annan hátt og skapa vettvang og farveg til þess.

1.2 Akureyrarbær sem atvinnurekandi

Akureyrarbær gætir jafnræðis og jafnréttis innan vinnustaða og mismunar hvorki beint né óbeint og tryggir jafna stöðu og jafnan rétta allra þegar kemur að ráðningum, launum, starfsþróun og samræmingu starfs- og fjölskylduábyrgðar. Til staðar skulu vera viðbragðsferlar og ráðstafanir til að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi, kynbundna eða kynferðislega áreitni á vinnustöðum, um það er fjallað í mannauðsstefnu Akureyrarbæjar og varðar heilbrigði, öryggi og vinnuvernd.

1.3 Akureyrarbær sem þjónustuaðili

Akureyrarbær leggur áherslu á að allar stofnanir bæjarins vinni markvisst og skipulega að því að móta og byggja upp þjónustu, menningarstarf, fræðslu og upplýsingamiðlun í þágu jafnréttis, mannréttinda og margbreytilegs samfélags þannig að allt fólk hafi jafnt aðgengi og geti tekið þátt á sínum forsendum.

1.4 Akureyrarbær sem samstarfsaðili og verkkaupi

Akureyrarbær vinnur með opinberum aðilum, háskólasamfélaginu, einkaaðilum og félögum sem vinna að því að efla frumkvæði, nýsköpun og þekkingaröflun og miðlun á sviði mannréttinda. Akureyrarbær leggur áherslu á að allir þeir aðilar sem bæjarfélagið á viðskipti við virði mannréttindi.

 

[1] Við endurskoðun á stefnunni 2023 var litið til framsetningar og efnistaka mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar, 3. útgáfa samþykkt í borgarstjórn 18. október 2016, og ber stefnan það með sér.

[2] Um skyldur sveitarfélaga segir í jafnréttislögum nr. 150/2020 að þeim beri að setja sér jafnréttisáætlun. Mannréttindastefna Akureyrarbæjar er jafnréttisáætlun sveitarfélagsins.

[3] Í þessari stefnu nær kynjasamþætting til samþættingar sjónarmiða allra sem stefnan tekur til og kallast því samþætting mannréttindasjónarmiða.

2. Jafnrétti kynja

Óheimilt er að mismuna fólki vegna kyns. Hvatt er til jafnrar þátttöku og áhrifa kvenna, karla, sem og fólks af öðrum kynjum og fólks sem ekki skilgreinir kyn sitt, í samfélaginu. Markvisst skal unnið gegn allri mismunun og hamlandi áhrifum staðlaðra ímynda kynjanna.

2.1 Akureyrarbær sem stjórnvald

Nefndir skulu skipaðar á fjölbreyttum grunni. Við skipan í nefndir, ráð og stjórnir á vegum bæjarins skal í samræmi við jafnréttislög gæta þess að hlutfall karla og kvenna sé sem jafnast og ekki undir 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Það sama gildir um hlutafélög og fyrirtæki sem Akureyrarbær er aðaleigandi að. Vinnuhópar og starfshópar sem stofnað er til á vegum bæjarins skulu skipaðir einstaklingum á grundvelli jafns hlutfalls kynja og mikilvægi fjölbreytni haft í huga.

2.1.1 Við undirbúning ákvarðanatöku og við úthlutun fjármagns, s.s. við fjárhags- og starfsáætlunargerð, skal leitast við að taka mið af þörfum og viðhorfum kynja og greina áhrif ákvarðana á stöðu þeirra.

2.1.2 Akureyrarbær einsetur sér að vinna gegn kynbundnu ofbeldi, hvort sem það er andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt.

2.1.3 Haldið verði á lofti jákvæðum ímyndum af fólki óháð kyni og samhliða því unnið gegn fordómum, háttsemi, málfari og myndmáli sem byggja á hugmyndum um æðri og óæðri stöðu eins samfélagshóps eða á staðalímyndum. Umfjöllun og myndbirtingar á upplýsingamiðlum Akureyrarbæjar mismuni ekki hópum eða einstaklingum eða séu þeim til minnkunar.

2.1.4 Hlutafélög og fyrirtæki sem Akureyrarbær er aðaleigandi að svo og félög sem hafa styrktarsamninga við Akureyrarbæ skulu hafa sett sér jafnréttisáætlun.

2.1.5 Þróunarleiðtogar séu málsvarar mannréttindasamþættingar og hafi innsýn og þekkingu á mannréttindum.

2.2 Akureyrarbær sem vinnuveitandi

Tryggt verði með verkferlum, leiðbeiningum og fræðslu að allt fólk óháð kyni njóti jafnréttis á vinnustöðum Akureyrarbæjar.

2.2.2 Launajafnrétti stuðlar að fjölbreytni á vinnumarkaði og hefur auk þess bein áhrif á hag fjölskyldna. Starfsfólki hjá Akureyrarbæ skulu greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf óháð kyni.

2.2.3 Vinnustaðir Akureyrarbæjar endurspegli fjölbreytileika íbúa sem best og unnið verði markvisst að því að jafna stöðu kynja og stuðla þannig að því að störf flokkist ekki í kvenna- eða karlastörf, hvorki í almennum störfum né stjórnunarstörfum.

2.2.4 Tryggt verði að starfsfólk Akureyrarbæjar njóti sömu möguleika til starfsþróunar óháð kyni.

2.2.5 Á vinnustöðum Akureyrarbæjar verði starfsfólki gert kleift að samræma starfs- og fjölskylduábyrgð eins og kostur er og eftir því sem verkefni og aðstæður leyfa.

2.2.6 Á vinnustöðum Akureyrarbæjar er ekki liðin kynbundin eða kynferðisleg áreitni, kynbundið ofbeldi né hverskyns annað ofbeldi og framsett er verklag og sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir slíkt á vinnustöðum.

2.3 Akureyrarbær sem þjónustuveitandi

Fordómaleysi og skýr jafnréttissýn einkenni þjónustu Akureyrarbæjar og endurspeglist í henni. Hatursorðræða og hatursglæpir verði ekki liðnir í samfélaginu og unnið gegn slíku með fræðslu. Samþætta skal mannréttindasjónarmið við alla þjónustu Akureyrarbæjar og á hún að endurspegla jákvæð samskipti og gagnkvæma virðingu í garð allra kynja.

2.3.1 Konur og karlar sem og fólk af öðrum kynjum og fólk sem ekki skilgreinir kyn sitt á jafnan aðgang að þjónustu sveitarfélagsins. Við ákvarðanir um tilhögun þjónustu er tekið mið af þörfum óháð kyni og áhrif hennar á konur og karla skoðuð sérstaklega. Kyngreina ber tölfræðiupplýsingar samanber 16. grein jafnréttislaga.

2.3.2 Allt fræðslu-, lýðheilsu-, tómstunda- og menningarstarf sem er á ábyrgð Akureyrarbæjar og stofnana bæjarins hafi jafna stöðu kynja að leiðarljósi. Hvetja skal börn og unglinga til að rækta hæfileika sína og persónuþroska án hamlandi áhrifa hefðbundinna staðalmynda. Styrkja skal jákvæð samskipti og gagnkvæma virðingu kynja í öllu starfi með börnum og ungmennum. Stjórnendur í fræðslu- og lýðheilsumálum, félags- og tómstundastarfi skulu styrkja jákvæða kynímynd og vinna gegn kynbundinni og kynferðislegri áreitni í umhverfi barna og ungs fólks. Gætt skal að því að samþætting mannréttindasjónarmiða endurspeglist í allri áætlanagerð og stefnumótunarvinnu.

2.3.3 Stjórnvöld skulu sjá til þess að umönnun og vernd til þeirra sem hennar að eiga njóta sé framfylgt, óháð kyni.

3. Aldur

Óheimilt er að mismuna fólki vegna aldurs og framlag hvers og eins er metið að verðleikum án tillits til aldurs. Akureyrarbær tekur mið af ákvæðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í öllu sínu starfi með börnum og er vottað barnvænt samfélag. Þetta felur meðal annars í sér að tryggja skal rétt barna til að mynda sér sínar skoðanir og láta þær í ljós í málum sem þau varða. Akureyrarbær hefur samráð við eldra fólk, börn og unglinga þegar ákvarðanir eru teknar sem varða hagsmuni þeirra (öldungaráð og ungmennaráð).

3.1 Akureyrarbær sem stjórnvald

Taka þarf tillit til sjónarmiða og þarfa íbúa, óháð aldri.

3.1.1 Við undirbúning ákvarðana sem geta haft áhrif á fólk vegna aldurs er tekið mið af þörfum og viðhorfum fólks á ólíku aldursskeiði. Í því sambandi er sérstaklega litið til barna, unglinga og eldra fólks.

3.1.2 Þegar verið er að undirbúa ákvarðanatöku sem hefur áhrif á ákveðna aldurshópa er haft samráð við fulltrúa þeirra, þegar því verður við komið.

3.1.3 Þegar gerðar eru ráðstafanir sem varða börn og unglinga skal ávallt hafa hagsmuni þeirra í fyrirrúmi.

3.2 Akureyrarbær sem vinnuveitandi

Við ráðningar er ekki mismunað eftir aldri.

3.2.1 Starfsfólki Akureyrarbæjar stendur til boða símenntun og starfsþróun óháð aldri, samanber mannauðsstefnu Akureyrarbæjar.

3.2.2 Akureyrarbær gætir þess að skapa jákvætt og gott andrúmsloft á vinnustað sem er laust við fordóma, staðalímyndir og aldursklisjur.

3.2.3 Í öllu fræðslu-, tómstunda- og félagsstarfi á vegum bæjarins tryggir hæft starfsfólk öryggi barna og ungmenna eins og best verður á kosið.

3.2.4 Akureyrarbær leggur áherslu á að hæft fólk sé ráðið í umönnunarstörf á vegum sveitarfélagsins.

3.3 Akureyrarbær sem þjónustuveitandi

Allir bæjarbúar eiga jafnan aðgang að þjónustu Akureyrarbæjar óháð aldri svo fremi sem þjónustan er ekki miðuð við ákveðna hópa, svo sem barna- og unglingastarf eða félagsstarf eldra fólks.

3.3.1 Við ákvarðanir um tilhögun þjónustu skal taka mið af þörfum allra aldurshópa og greina hvort áhrif þjónustu á kyn geti verið mismunandi.

3.3.2 Öll þjónusta við eldra fólk, börn og unglinga er á ábyrgð Akureyrarbæjar, sem hefur jafna stöðu kynja að leiðarljósi. Aldur er ekki feimnismál og í fræðslu-, upplýsinga- og kynningarefni er leitast við að lýsa fjölbreytileika samfélagsins.

3.3.3 Stuðla ber að jákvæðum og uppbyggilegum viðhorfum til allra aldurshópa sem njóta þjónustu bæjarins, þar á meðal barna og eldra fólks.

3.3.4 Stjórnvöld skulu sjá til þess að umönnun og vernd til þeirra sem hennar eiga að njóta sé framfylgt, óháð aldri.

4. Fötlun

Óheimilt er að mismuna fólki vegna fötlunar. Skal fötluðu fólki því tryggðar aðstæður til að taka virkan þátt í samfélaginu. Framlag hvers og eins er metið að verðleikum. Virða ber rétt hvers og eins til að tjá sig, eða tjá sig ekki, um fötlun sína. Varast ber að líta svo á að allir séu eins þó að þeir tilheyri ákveðnum hópi og gæta þarf þess sérstaklega að greina stöðu fatlaðs fólks eftir kyni.

4.1 Akureyrarbær sem stjórnvald

Allir einstaklingar eiga rétt á virkri þátttöku í samfélaginu og sanngjarnri og réttlátri meðferð óháð fötlun og er þess sérstaklega gætt að á ekkert kyn halli. Þarfir og sjónarmið fatlaðra bæjarbúa eru virt og haft við þá samráð í stefnumörkun og ákvarðanatöku um málefni þeirra.

4.2 Akureyrarbær sem vinnuveitandi

Veita skal fötluðu fólki tíma til aðlögunar í nýju starfi. Stjórnendur vinnustaða leggja sig fram um að sýna starfsfólki sínu sem eru aðstandendur fatlaðs fólks sveigjanleika eða tíma til aðlögunar þegar þess er þörf og þegar því verður við komið. 

4.2.1 Við ráðningu fatlaðs starfsmanns ber að sjá til þess að hann njóti viðeigandi aðlögunar að nýju starfi sem og símenntunar og starfsþróunar að sama marki og aðrir starfsmenn, ásamt því að tryggja jafnt, öruggt og þægilegt aðgengi að vinnustað og vinnuaðstöðu.

4.2.2 Starfsfólk leggur sig fram um að skapa fordómalaust umhverfi á vinnustað.

4.2.3 Akureyrarbær leggur áherslu á að hæft fólk sé ráðið í umönnunarstörf á vegum sveitarfélagsins.

4.3 Akureyrarbær sem þjónustuveitandi

Fatlað fólk skal eiga greiðan og jafnan aðgang að þjónustu bæjarins. Gott aðgengi að upplýsingum og þjónustu er mikilvægur grundvöllur fyrir sjálfstæðu lífi fatlaðs fólks. Tryggja þarf fötluðu fólki gott aðgengi að upplýsingum og þeim skal vera tryggður möguleiki á virkri þátttöku þegar teknar eru ákvarðanir um þjónustu fyrir það.

4.3.1 Þess er gætt þegar þjónusta er skipulögð að hún taki mið af þörfum ólíkra hópa fatlaðs fólks af öllum kynjum. Opinberar byggingar eiga að vera aðgengilegar fyrir alla óháð fötlun samanber lög um málefni fatlaðs fólks númer 59/1992.

4.3.2 Allt fræðslu-, lýðheilsu-, tómstunda- og menningarstarf á vegum bæjarins tekur mið af þörfum fatlaðs fólks af öllum kynjum og veitir því sérstakan stuðning til þess að það fái notið þessa til jafns á við aðra.

4.3.3 Fötlun er ekki feimnismál og kennsluefni á alltaf að lýsa fjölbreytileika mannlífsins. Fjölbreytni og margbreytileiki samfélagsins hljóti kynningu í starfi með börnum og ungmennum á öllum skólastigum. Unnið skal að því að útrýma fordómum gagnvart fötluðu fólki.

4.3.4 Stjórnvöld skulu sjá til þess að umönnun og vernd til þeirra sem hennar eiga að njóta sé framfylgt, óháð fötlun. 

5. Kynhneigð, kynvitund, kyntjáning og kyneinkenni

Óheimilt er að mismuna fólki vegna kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar eða kyneinkenna. Framlag hvers og eins skal metið að verðleikum án tillits til kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar eða kyneinkenna. Ekki skal ganga út frá því að allt fólk sé gagnkynhneigt og sís-kynja. Greina þarf sérstaklega stöðu hinsegin fólks í samfélaginu.

5.1 Akureyrarbær sem stjórnvald

Allt fólk á rétt á virkri þátttöku í samfélaginu og sanngjarnri og réttlátri meðferð óháð kynhneigð, kynvitund, kyntjáningu eða kyneinkennum og skal þess sérstaklega gætt að hvergi halli á kynin.

5.1.2 Við undirbúning ákvarðana er varða hinsegin fólk skal hafa virkt samráð við hagsmunasamtök þeirra.

5.2 Akureyrarbær sem vinnuveitandi

Þess skal gætt við ráðningar, uppsagnir og ákvarðanir um kjör starfsfólks sveitarfélagsins að ómálefnalegum ástæðum sé ekki beitt sem rökum gegn starfsfólki.

5.2.1 Virða ber rétt fólks til að tjá sig, eða tjá sig ekki, um kynhneigð, kynvitund, kyntjáningu eða kyneinkenni sín.

5.2.2 Starfsfólk skapar andrúmsloft sem er laust við fordóma gagnvart hinsegin samstarfsfólki og á það við um í starfi og leik á vinnustað.

5.3 Akureyrarbær sem þjónustuveitandi

Starfsfólk skal ekki ganga út frá því sem vísu að allt fólk sem nýtur þjónustu sveitarfélagsins sé gagnkynhneigt, sís-kynja eða eigi gagnkynhneigða eða sís-kynja foreldra. Starfsfólk gengur heldur ekki út frá því að allir einstaklingar eigi tvo foreldra þar sem sum börn eiga eitt foreldri og önnur fleiri en tvo foreldra. Samskipti starfsfólks og þeirra sem njóta þjónustu séu byggð á gagnkvæmri virðingu.

5.3.1 Allt fræðslu-, lýðheilsu-, tómstunda- og menningarstarf taki mið af því að þátttakendur geti verið hinsegin. Margs konar fjölskyldugerðir á að ræða á opinskáan og fordómalausan hátt. Kennarar og starfsfólk í skólum, í frístund- og félagsmiðstöðvastarfi sem og öðru starfi með börnum og ungmennum geri fjölbreytileika mannlífisins sýnilegan í starfi sínu, til að mynda þegar kemur að vali á fræðslu- og afþreyingarefni sem notað er á öllum skólastigum.

5.3.2 Allt Stjórnvöld skulu sjá til þess að umönnun og vernd til þeirra sem hennar eiga að njóta sé framfylgt, óháð kynhneigð, kynvitund, kyntjáningu eða kyneinkennum.

6. Trú og lífsskoðun

Óheimilt er að mismuna fólki vegna trúar-, lífs- og stjórnmálaskoðana eða trúleysis. Framlag hvers og eins skal metið að verðleikum án tillits til trúarbragða, lífs- og stjórnmálaskoðana eða trúleysis. Varast ber að líta svo á að allir einstaklingar sem aðhyllast tilgreind trúarbrögð, lífs- eða stjórnmálaskoðun eða eru trúlausir séu eins.

6.1 Akureyrarbær sem stjórnvald

Akureyrarbær sýnir fólki virðingu óháð trú, trúleysi þess eða skoðunum. Allt fólk á rétt á virkri þátttöku í samfélaginu og sanngjarnri og réttlátri meðferð óháð trú, trúleysi eða skoðunum og skal þess sérstaklega gætt að hvergi halli á kynin.

6.1.1 Við undirbúning ákvarðana sem snerta trúar- eða lífsskoðunarfélög skal haft við þau samráð eins og kostur er.

6.2 Akureyrarbær sem vinnuveitandi

Akureyrarbær kemur fram við starfsmenn sína af virðingu og gætir jafnræðis. Starfsfólk fylgir mannréttindastefnu Akureyrarbæjar í störfum sínum og annarri samþykktri stefnumörkun.

6.2.1 Akureyrarbær gerir ekki upp á milli starfsfólks í kjörum vegna trúar- eða lífsskoðana, stjórnmálaskoðana, trúleysis eða af öðrum ómálefnalegum ástæðum.

6.2.2 Allt starfsfólk nýtur sömu tækifæra til starfsþróunar og símenntunar óháð trúar-, lífs- og stjórnmálaskoðunum.

6.2.3 Allt starfsfólk Akureyrarbæjar ber ábyrgð á að skapa fordómalaust starfsumhverfi.

6.2.4 Virða ber rétt fólks til að tjá sig, eða tjá sig ekki, um trú sína eða trúleysi og lífs- og stjórnmálaskoðanir.

6.2.5 Ástundun trúarbragða eða tjáning lífs- og stjórnmálaskoðana á ekki trufla starfsemi á vinnustað.

6.3 Akureyrarbær sem þjónustuveitandi

Ólíkar stjórnmálaskoðanir eða afstaða til trúarbragða og lífsskoðana á hverjum tíma á ekki að hafa áhrif á hvernig komið er fram við þá sem nota þjónustu sveitarfélagsins.

6.3.1 Allir einstaklingar skulu eiga jafnt aðgengi að þjónustu Akureyrarbæjar, óháð trúleysi, stjórnmála-, lífs- og trúarskoðunum.

6.3.2 Í fræðslu-, tómstunda-, lýðheilsu- og menningarstarfi á vegum sveitarfélagsins er mikilvægt að ekki sé gengið út frá því að allt fólk aðhyllist sömu trú eða séu trúaðir. Trúarbrögð, trúleysi og lífsskoðanir eru kynntar í tengslum við nám nemenda og í því er fjölbreytileika mannlífsins lýst. Ekki skal hampa einni trú eða lífsskoðun umfram aðra og gæta skal hlutleysis í framsetningu námsefnis og í kennslu barna.

6.3.3 Þjónusta sveitarfélagsins einkennist af uppbyggilegum samskiptum og gagnkvæmri virðingu, óháð stjórnmála- eða trúar- og lífsskoðunum fólks. Unnið skal að því að útrýma fordómum í garð trúarbragða, trúleysis og lífs- og stjórnmálaskoðana.

6.3.4 Stjórnvöld skulu sjá til þess að umönnun og vernd til þeirra sem hennar eiga að njóta sé framfylgt, óháð trú, trúleysi eða skoðunum.

7. Uppruni og þjóðerni

Óheimilt er að mismuna bæjarbúum vegna uppruna þeirra, litarháttar, þjóðernis, menningarlegs bakgrunns eða vegna hvers kyns flokkunar sem byggð er á kynþáttahyggju. Framlag hvers og eins skal metið að verðleikum og allir einstaklingar eiga rétt á sams konar viðmóti og framkomu, óháð uppruna eða þjóðerni. Varast ber að flokka alla sem falla undir þessar skilgreiningar sem einn hóp. Gæta þarf að stöðu kvenna, karla, hinsegin fólks, fatlaðs fólks og barna af erlendum uppruna í sveitarfélaginu og bregðast við ef á einhvern hópinn hallar.

7.1 Akureyrarbær sem stjórnvald

Allir einstaklingar eiga rétt á virkri þátttöku í samfélaginu og sanngjarnri og réttlátri meðferð óháð uppruna og skal þess sérstaklega gætt að hvergi halli á kynin. Leita skal eftir sjónarmiðum hagsmunaaðila og fagaðila við stefnumótun og ákvarðanatöku og skal Akureyrarbær stuðla að aukinni þátttöku fólks af erlendum uppruna í lýðræðislegri ákvarðanatöku almennt. Þá skal Akureyrarbær stuðla markvisst að aukinni þátttöku fólks af erlendum uppruna í málefnum sveitarfélagsins og í stjórnum, ráðum og nefndum.

7.2 Akureyrarbær sem vinnuveitandi

Til þess að þjóna fjölmenningarlegu samfélagi er mikilvægt að hafa fólk af ólíkum uppruna í röðum starfsfólks. Þekking og menntun innflytjenda og fólks af erlendum uppruna skal metin að verðleikum.

7.2.1 Í auglýstum störfum sveitarfélagsins skal vakin athygli á mannréttindastefnu Akureyrarbæjar og að Akureyrarbær vinni gegn mismunun á vinnumarkaði.

7.2.2 Fólk af erlendum uppruna skal njóta jafnréttis í ráðningarferli og í öllum kjörum og réttindum.

7.2.3 Allt starfsfólk nýtur sömu tækifæra til starfsþróunar og símenntunar óháð uppruna og þjóðerni. Starfsfólk af erlendum uppruna nýtur jafnréttis þegar kemur að tækifærum til starfsframa og starfsþróunar.

7.2.4 Á vinnustöðum Akureyrarbæjar er unnið gegn fordómum vegna uppruna, litarháttar, þjóðernis eða menningarlegs bakgrunns.

7.2.5 Tryggja þarf starfsfólki þekkingu til að sinna starfi í fjölmenningarlegu og margbreytilegu samfélagi.

7.3 Akureyrarbær sem þjónustuveitandi

Tryggt er að innflytjendur og fólk af erlendum uppruna eigi greiðan aðgang að þjónustu sveitarfélagsins. Sérstaklega er tekið mið af þörfum innflytjenda þegar þjónusta á vegum þess er skipulögð. Veitt er túlkaþjónusta í viðtölum hjá ráðgjöfum og í foreldrasamtölum. Bæjarbúum af erlendum uppruna skal veitt tækifæri til að koma athugasemdum sínum um þjónustuna á framfæri.

7.3.1 Allt fræðslu-, lýðheilsu-, tómstunda- og menningarstarf á vegum sveitarfélagsins tekur mið af þörfum barna af erlendum uppruna og veitir þeim sérstakan stuðning og íslenskukennslu til þess að þau njóti sömu tækifæra og önnur börn. Þess skal jafnframt gætt að íslensk börn fái fræðslu um aðra menningarheima til að styðja við gagnkvæma aðlögun. Einnig er mikilvægt að tryggja þátttöku foreldra af erlendum uppruna í skóla- og frístundastarfi barna sinna og aðgengi þeirra að upplýsingum. Fjölbreytni og margbreytileiki samfélagsins endurspeglast í daglegu starfi með börnum og ungmennum og mikilvægt er að þau fái tækifæri til að viðhalda móðurmáli sínu og kynna heimamenningu sína.

7.3.2 Stofnanir sveitarfélagsins eiga að búa til aðgengilegt og auðskilið upplýsingaefni um þjónustu sveitarfélagsins á tungumálum þeirra hópa sem fjölmennastir eru í samfélaginu, sbr. upplýsingastefna Akureyrarbæjar, og birta á vefmiðli bæjarins.

7.3.3 Starfsfólk skapar umhverfi sem er laust við fordóma í garð einstaklinga vegna uppruna, litarháttar, þjóðernis eða menningarlegs bakgrunns. Starfsfólk leggur sig fram um alúðleg samskipti þrátt fyrir að ólík tungumálaþekking geti valdið hindrunum.

7.3.4 Stjórnvöld skulu sjá til þess að umönnun og vernd til þeirra sem hennar eiga að njóta sé framfylgt, óháð uppruna, litarháttar, þjóðernis eða menningarlegs bakgrunns.

8. Holdarfar og líkamsgerð

Óheimilt er að mismuna fólki vegna holdafars, útlits eða líkamsgerðar. Framlag hvers og eins skal metið að verðleikum án tillits til hæðar, þyngdar eða útlits.

8.1 Akureyrarbær sem stjórnvald

Allir einstaklingar eiga rétt á virkri þátttöku í samfélaginu og sanngjarnri og réttlátri meðferð óháð holdafari, hæð, útliti eða líkamsgerð.

8.2 Akureyrarbær sem vinnuveitandi

Virða skal þá staðreynd að fólk er ólíkt að líkamsstærð og útliti.

8.3 Akureyrarbær sem þjónustuveitandi

Allir íbúar skulu eiga jafnan aðgang að þjónustu sveitarfélagsins óháð holdafari og líkamsgerð. Stjórnvöld skulu sjá til þess að umönnun og vernd til þeirra sem hennar eiga njóta sé framfylgt, óháð holdarfari, útliti eða líkamsgerð.

9. Ábyrgð og ábyrgðarsvið

Mannréttindastefna Akureyrarbæjar er miðlæg stefna sem öll svið og stofnanir bæjarins fylgja.

Stjórnendur og annað starfsfólk bera ábyrgð á því að tryggja mannréttindi og að þau séu virt í stjórnkerfi Akureyrarbæjar, á vinnustöðum sveitarfélagsins og í þjónustu. Þá ber öllu starfsfólki, kjörnum fulltrúum og nefndafólki að fara eftir stefnunni og vinna að framgangi hennar.

Stjórnendur bera ábyrgð á að:

 • vinna samkvæmt stefnunni
 • kynna stefnuna
 • samþætta mannréttindasjónarmið í starfs- og fjárhagsáætlun
 • samþætta mannréttindasjónarmið í stefnumótun
 • tryggja að starfsfólk fái fræðslu um mannréttindi
 • vinna markvisst gegn fordómum og staðalímyndum innan þjónustustofnana og gagnvart notendum þjónustunnar
 • tileinka sér innsýn og þekkingu á mannréttindamálum
 • styðja starfsfólk í mannréttindastarfi

Þróunarleiðtogar bera ábyrgð á að:

 • samþætta mannréttindasjónarmið í starfs- og fjárhagsáætlun
 • samþætta mannréttindasjónarmið í stefnumótun
 • tileinka sér innsýn og þekkingu á mannréttindamálum
 • styðja starfsfólk í mannréttindastarfi

Bæjarráð ber ábyrgð á að:

 • fara með hlutverk jafnréttisnefndar
 • fjalla um stöðu ýmissa hópa innan sveitarfélagsins og vera ráðgefandi fyrir bæjarstjórn í þeim málefnum sem varða mannréttindi
 • fylgjast með og hafa frumkvæði að aðgerðum til að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt allra
 • hafa umsjón með gerð mannréttindastefnu
 • taka annað hvert ár saman skýrslu samkvæmt beiðni frá Jafnréttisstofu um stöðu og þróun jafnréttismála innan sveitarfélagsins
 • fjallað sé um verkefni mannréttindastefnu í starfsáætlunum sviða
 • sjá til þess að í starfsáætlunum nefnda og ráða séu mannréttindamarkmið
 • kalla árlega eftir skýrslu um framkvæmd mannréttindamála hjá Akureyrarbæ

Kjörnir fulltrúar bera ábyrgð á að:

 • tryggja það fjármagn sem þarf til að ýta undir framgang mannréttinda

Mannauðsdeild ber ábyrgð á að:

 • veita stofnunum og starfsfólki bæjarins fræðslu og ráðgjöf sem snertir mannréttindi, m.a. samþættingu mannréttindastarfs við starfsemi bæjarins
 • veita mannréttindastefnu eftirfylgni og tryggja framkvæmd hennar í samvinnu við bæjarráð og bæjaryfirvöld

Stjórnendur skólastarfs bera ábyrgð á að:

 • kennsluhættir taki mið af fjölbreyttu samfélagi
 • að fræðsla um mannréttindi sé hluti af skólastarfi og útfærð í skólanámskrám
 • tryggja að nemendur fái í náms- og starfsfræðslu kynningu á störfum sem teljast hefðbundin kvenna- og karlastörf
 • tryggja að námsefni mismuni ekki kynjum, vinni gegn fordómum og hafi jafnan rétt allra barna að leiðarljósi
 • vinna gegn kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi

Stjórnendur íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfs bera ábyrgð á að:

 • skipuleggja félags- og tómstundastarf með mannréttindi og jafna meðferð einstaklinga að leiðarljósi
 • tryggja að félagasamtök sem njóta aðstöðu, styrkja eða annarra gæða sem Akureyrarbær lætur í té, svo sem til íþróttaiðkunar, gæti mannréttinda og að jafnri meðferð í hvívetna

Aðgerðaráætlun

Síðast uppfært 21. júlí 2023