Samþykkt um kattahald í Akureyrarkaupstað

1. gr.

Stjórnsýsla.

Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra fer með málefni katta og kattahalds samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Framkvæmdaráð Akureyrarkaupstaðar fer með framkvæmd samþykktar þessarar, í umboði heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, nema sérstaklega sé getið um eftirlit heilbrigðiseftirlits í samþykkt þessari. Framkvæmdadeild Akureyrarkaupstaðar annast framkvæmdina í umboði framkvæmdaráðs.

2. gr.

Leyfi og bann við kattahaldi.

Kattahald er bannað í Grímsey og mega kettir hvorki dvelja í Grímsey né koma í heimsóknir.

Kattahald er heimilað annars staðar í Akureyrarkaupstað að fengnu leyfi, með þeim takmörkunum og að uppfylltum þeim skilyrðum, sem sett eru í samþykkt þessari.

Lausaganga katta er bönnuð í Hrísey.

Ekki er heimilt að hafa fleiri en þrjá ketti, eldri en 4 mánaða, á sama heimili.

Gelda skal alla fressketti þegar þeir hafa náð 5 mánaða aldri, nema þeir séu notaðir til undaneldis.

3. gr.

Leyfi til kattahalds.

Umsókn um leyfi til kattahalds skal senda framkvæmdadeild Akureyrarkaupstaðar innan mánaðar frá því að köttur er tekinn inn á heimili, enda hafi samþykki skv. 4. gr. verið aflað ef við á. Heimilt er þó að halda kettlinga, sem vistaðir eru á skráningarstað móður, án skráningar þar til þeir verða 4 mánaða, enda hafi samþykkis skv. 4. gr. verið aflað ef við á. Útgáfa leyfis er háð staðgreiðslu skráningargjalds. Við útgáfu leyfis fær leyfishafi afhenta merkta plötu, sbr. 8. gr. og eintak af samþykkt um kattahald í Akureyrarkaupstað.

Leyfi til kattahalds má veita að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:

a. Umsækjandi skal vera lögráða. Leyfið er persónubundið, óframseljanlegt og bundið við heimili umsækjanda enda er það ófrávíkjanlegt skilyrði að köttur sé skráður þar og haldinn.
b.  Að fyrir liggi samþykki sameigenda fjöleignarhúss þar sem það á við, sbr. 4. gr.
c. Að kötturinn sé örmerktur, sbr. 8. gr.
d. Að keypt sé ábyrgðartrygging vegna kattar, sbr. 7. gr.
Hafi umsækjandi ítrekað eða gróflega gerst brotlegur við samþykkt þessa eða fyrri samþykktir sama efnis eða lög um dýravernd, er heimilt að hafna umsókn hans.

4. gr.

Kettir í fjöleignarhúsum, raðhúsum o.fl.

Áður en köttur er tekinn inn á heimili í fjöleignarhúsi skal afla samþykkis eigenda annarra íbúða í samræmi við ákvæði þessarar greinar.

Þegar sótt er um leyfi til að halda kött í fjöleignarhúsi þar sem inngangur eða stigagangur er sameiginlegur eða um annað sameiginlegt rými er að ræða, skal umsókn fylgja skriflegt samþykki þeirra eigenda og íbúa, sem hlut eiga að máli, sbr. nánar 13. tölul. A-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Þegar íbúð umsækjanda hefur sérinngang, þótt um sé að ræða annars konar sameiginlegt húsrými eða sameiginlega lóð, þá er veiting leyfis til kattahalds þó ekki háð samþykki annarra eigenda, enda er öll viðvera og/eða umferð kattarins um slík rými stranglega bönnuð. Brot á því telst alvarlegt brot á samþykkt þessari og skilyrðum leyfisins og varðar sviptingu þess.

Ef annað er ekki tekið fram, nær samþykki skv. 1. mgr. einvörðungu til tiltekins kattar og gildir á meðan hann lifir. Heimilt er að afturkalla samþykki ef forsendur breytast verulega. Ástæður, sem réttlætt geta afturköllun eru m.a. heilbrigðisástæður og óþægindi og ónæði, sem fer verulega fram yfir það, sem venjulegt og eðlilegt er.

Ef um er að ræða annars konar sameign en um getur í 1. mgr., eða nábýli af öðrum toga og sameigandi eða nágranni telur kattahaldið fara í bága við rétt sinn og hagsmuni, svo sem vegna ítrekaðs eða verulegs ónæðis og færi hann fram gild rök og fullnægjandi gögn því til stuðnings, getur framkvæmdadeild synjað um umbeðið leyfi eða afturkallað áður veitt leyfi.

Ef íbúð í fjöleignarhúsi er leigð út skal leigusali upplýsa leigjanda um hvort kattahald er leyft í húsinu.

Ef íbúðareigandi í fjöleignarhúsi, sem veitt hefur leyfi fyrir ketti í annarri íbúð, selur íbúð sína helst samþykkið fyrir þann kött meðan hann lifir, sbr. þó 3. mgr.

5. gr.

Skammtímaheimsóknir.

Áður en köttur er tekinn inn á heimili í fjöleignarhúsi í stuttan tíma skal afla samþykkis samkvæmt 4. gr.

Kettir, sem ekki eru skráðir á Akureyri mega ekki dveljast þar lengur en þrjá mánuði nema með leyfi framkvæmdadeildar og að fengnu samþykki samkvæmt 3. gr. sé um fjöleignarhús að ræða.

Um skammtímaheimsóknir katta í húsum gildir ákvörðun eigenda einbýlis- og fjöleignarhúsa hverju sinni og/eða reglur viðkomandi húsfélags.

6. gr.

Kattaskrá, tilkynningarskylda eiganda.

Upplýsingar um ketti skal skrá hjá framkvæmdadeild Akureyrarkaupstaðar. Skrá skal heiti, aldur, kyn, tegund, litarhátt, númer örmerkis og önnur einkenni kattarins. Þar skal einnig skrá nafn og heimilisfang leyfishafa.

Eiganda kattar ber að tilkynna framkvæmdadeild um aðsetursskipti. Einnig skal hann tilkynna framkvæmdadeild ef kötturinn drepst eða er fluttur úr lögsagnarumdæminu. Eigendaskipti skal tilkynna með sama hætti.

7. gr.

Ábyrgðartrygging.

Leyfishafa er skylt að hafa í gildi ábyrgðartryggingu vegna kattar sem hann hefur leyfi fyrir. Skal ábyrgðartrygging ná til alls þess tjóns, sem kötturinn kann að valda mönnum, dýrum, gróðri og munum.

8. gr.

Ormahreinsun, örmerking, merkiplata.

Skylt er að ormahreinsa ketti á hverju ári. Skal leyfishafi skila vottorði dýralæknis um ormahreinsun kattarins til framkvæmdadeildar fyrir 31. desember ár hvert.

Köttur sem sótt er um leyfi fyrir skal örmerktur af dýralækni samkvæmt stöðlum Alþjóðastaðlaskrárráðsins, ISO 11784 og 11785.

Köttur skal ávallt bera ól með plötu um hálsinn. Á plötuna skal skrá skráningarnúmer kattarins og símanúmer eiganda hans.

9. gr.

Gjöld fyrir leyfi.

Fyrir leyfi til að halda kött skal leyfishafi greiða annars vegar leyfisgjald og hins vegar eftirlitsgjald. Gjöldum þessum er ætlað að standa undir kostnaði af kattahaldi og framkvæmd samþykktar þessarar. Bæjarstjórn setur gjaldskrá, að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar, samkvæmt 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Leyfisgjaldið greiðist einu sinni, við skráningu kattar. Eftirlitsgjald greiðist einnig við skráningu, þ.e. hlutfallslega miðað við þann mánuð sem skráning fer fram og síðan árlega.

10. gr.

Helstu varúðar-, aðgæslu- og umgengnisskyldur.

Eigendur og umráðamenn katta skulu gæta þess vel, að kettir þeirra valdi ekki hættu, óþægindum, óþrifnaði eða raski ró manna.

Eigendum og umráðamönnum katta ber að sjá til þess að kettir þeirra séu ávallt með bjöllu.

Að öðru leyti skal fara að ákvæðum laga nr. 15/1994 um dýravernd og reglugerðar nr. 1077/2004 um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni, eftir því sem við á.

11. gr.

Óheimilir staðir.

Ekki má hleypa köttum inn í húsrými eða á lóðir sem fjallað er um í fylgiskjali 3 með reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti, sbr. 19. gr. reglugerðarinnar. Einnig er óheimilt að hleypa köttum inn í húsnæði matvælafyrirtækja, sbr. reglugerð nr. 103/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli, og inn í húsnæði vatnsveitna sbr. reglugerð nr. 536/2001 um neysluvatn og reglugerð nr. 405/2004 um náttúrulegt ölkelduvatn og átappað lindarvatn. Framangreindir staðir eru m.a. eftirfarandi:

1. Vatnsveitur, vatnsból og vatnsverndarsvæði þeirra, brunnar og sjóveitur.
2. Almennings- og útisalerni.
3. Hvers konar sorpgeymslu- og sorpförgunarstaðir.
4. Gististaðir, veitingastaðir og matsölustaðir.
5. Tjald- og hjólhýsasvæði, nema með leyfi umsjónaraðila.
6.  Húsakynni þar sem geymd eru, framleidd eða seld matvæli.
7. Skólar, kennslustaðir, leikskólar, gæsluvellir og sumarbúðir fyrir börn.
8. Rakarastofur, hárgreiðslustofur, hvers konar snyrtistofur og sólbaðsstofur.
9. Heilbrigðisstofnanir, sjúkrahús, tannlækna- og læknastofur, aðgerðarstofur, og meðferðarstofnanir.
10. Heilsuræktar- og íþróttastöðvar. Nudd- og baðstofur. Húðflúrstofur.
11. Fangelsi og aðrar vistarverur handtekinna manna.
12. Samkomuhús hvers konar og staðir, sem almenningur hefur aðgang að vegna afgreiðslu og þjónustu, s.s. kirkjur, leikhús, hljómleikasalir, söfn og kvikmyndahús.
13. Kirkjugarðar.
14.  Almenn samgöngutæki, nema leigubifreiðar með samþykki bílstjóra.

Heimilt er þó að fara með gæludýr inn í íþróttamannvirki, heilbrigðisstofnanir, snyrtistofur og þar sem er starfsemi sem sérstaklega er ætluð dýrum.

Heimilt er, að fenginni beiðni hlutaðeigandi stofnunar og með samþykki heilbrigðisnefndar að veita undanþágu til að halda ketti á heilbrigðis- og meðferðarstofnunum.

12. gr.

Lausir kettir, handsömun, geymsla, aflífun, kostnaður.

Ómerkta ketti skal færa í sérstaka kattageymslu og auglýsa handsömunina. Verði kattar ekki vitjað innan viku frá auglýsingu er heimilt að ráðstafa honum til nýs eiganda eða selja hann fyrir áföllnum kostnaði. Að öðrum kosti skal hann aflífaður.

Hafi köttur verið handsamaður, er óheimilt að afhenda hann fyrr en að lokinni skráningu, örmerkingu, greiðslu eftirlitsgjalds og áfallins kostnaðar. Kostnaður við handsömun, örmerkingu, fóðrun, geymslu, auglýsingu eða aflífun kattar skal að fullu greiddur af eiganda.

13. gr.

Áminning og svipting leyfis vegna brota.

Ef eigandi kattar brýtur gegn lögum um dýravernd, dýrahald, samþykkt þessari eða öðrum reglum, sem um dýrahald gilda, getur framkvæmdadeild Akureyrarkaupstaðar afturkallað leyfi til hans og/eða bannað honum að vera með kött í lögsagnarumdæmi Akureyrarkaupstaðar. Um málsmeðferð gilda reglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Sé brot smávægilegt skal áminna eiganda kattar að undangengnum andmælarétti. Ítrekað brot gegn lögum um dýravernd, dýrahald, samþykkt þessari eða öðrum reglum, sem um dýrahald gilda varðar afturköllun leyfis til kattarhalds.

14. gr.

Lögregluaðstoð.

Framkvæmdadeild Akureyrarkaupstaðar getur ef þörf krefur leitað atbeina lögreglu við að framfylgja samþykkt þessari og ákvörðunum teknum á grundvelli hennar. Heilbrigðisnefnd getur sett nánari reglur um framkvæmd samþykktar þessarar.

15. gr.

Viðurlög.

Um valdsvið og þvingunarúrræði vísast til VI. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Eigendur eða umráðamenn katta sem brjóta gegn ákvæðum samþykktar þessarar skulu sæta skriflegri áminningu og gefinn hæfilegur frestur til úrbóta. Ef eigandi eða umráðamaður kattar vanrækir skyldur sínar eða brýtur ítrekað gegn ákvæðum samþykktar þessarar eða öðrum reglum sem gilda um kattahald getur sveitarstjórn bannað viðkomandi að halda kött og látið fjarlægja köttinn.

Brot gegn samþykkt þessari varða sektum rúmist þau jafnframt innan refsiákvæða hlutaðeigandi laga, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Skulu þau brot sæta þeirri málsmeðferð sem boðin er í lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Um málskot fer samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

16. gr.

Kattaræktun.

Um kattaræktun gildir reglugerð nr. 1077/2004 um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni.

17. gr.

Gildistaka.

Samþykkt þessi staðfestist hér með skv. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir til þess að öðlast gildi þegar við birtingu. Frá sama tíma fellur úr gildi samþykkt nr. 143/2009 um kattarhald á Akureyri.

Ákvæði til bráðabirgða.

Eigendur katta sem halda ketti við gildistöku samþykktarinnar skulu skrá ketti sína innan sex mánaða frá gildistöku. Sú skráning er gjaldfrjáls.

Þeim sem halda fleiri ketti en þrjá er skylt að skrá þá innan sex mánaða og hafa þeir þá leyfi til að halda þá á heimili sínu á meðan þeir lifa.

Umhverfisráðuneytinu, 11. apríl 2011.

Síðast uppfært 12. nóvember 2020