Tónatröð og Spítalavegur - breyting á aðalskipulagi

Málsnúmer 2021120164

Vakta málsnúmer

Skipulagsráð - 371. fundur - 08.12.2021

Lögð fram tillaga að skipulagslýsingu fyrir breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 vegna áforma við Tónatröð og Spítalaveg til samræmis við bókun skipulagsráðs frá 10. nóvember 2021.
Skipulagsráð gerir ekki athugasemd við lýsinguna. Ráðið leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki lýsinguna og að hún verði kynnt skv. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Bæjarstjórn - 3503. fundur - 14.12.2021

Liður 2 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 8. desember 2021:

Lögð fram tillaga að skipulagslýsingu fyrir breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 vegna áforma við Tónatröð og Spítalaveg til samræmis við bókun skipulagsráðs frá 10. nóvember 2021.

Skipulagsráð gerir ekki athugasemd við lýsinguna. Ráðið leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki lýsinguna og að hún verði kynnt skv. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Þórhallur Jónsson kynnti tillögu skipulagsráðs. Í umræðum tóku til máls Hilda Jana Gísladóttir, Þórhallur Jónsson, Tryggvi Már Ingvarsson, Sóley Björk Stefánsdóttir Andri Teitsson.
Meirihluti bæjarstjórnar samþykkir skipulagslýsinguna og að hún verði kynnt skv. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Heimir Haraldsson S-lista, Halla Björk Reynisdóttir L-lista, Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista og Tryggvi Már Ingvarsson B-lista sitja hjá við afgreiðsluna og leggja fram eftirfarandi bókun:

Þær hugmyndir sem nú liggja til grundvallar uppbyggingar við Tónatröð eru að mörgu leyti álitlegar. Hins vegar er ekki hægt að taka afstöðu til þeirra vegna þess hvernig staðið var að málum í upphafi. Við ítrekum því þá afstöðu okkar að í anda góðrar stjórnsýslu og jafnræðis hefði verið eðlilegt að bæjarstjórn tryggði að allir áhugasamir hefðu fengið jöfn tækifæri til þess að sækjast eftir lóðum við Tónatröð á breyttum forsendum. Því hefði verið æskilegra að svæðið yrði skipulagt sem almennur þróunarreitur og auglýst eftir samstarfsaðila vegna vinnu við skipulag reitsins, þó með þeim skilyrðum að uppbygging falli vel að nærliggjandi byggð.

Skipulagsráð - 374. fundur - 26.01.2022

Kynningu skipulagslýsingar í samræmi við 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er lokið. Alls bárust 113 ábendingar við lýsinguna. Umsagnir bárust frá Minjastofnun Íslands, Isavia, SAk, Skipulagsstofnun, Norðurorku og Veðurstofu Íslands.

Þá er jafnframt lagt fram minnisblað frá GeoTek ehf. um niðurstöður jarðvegsrannsókna á svæðinu.
Afgreiðslu frestað þar til umferðargreining og umsögn Veðurstofu Íslands um jarðvegsrannsóknir liggja fyrir.

Skipulagsráð - 376. fundur - 23.02.2022

Á fundi skipulagsráðs þann 26. janúar sl. voru lagðar fram athugasemdir og umsagnir sem bárust við lýsingu fyrir breytingu á aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 vegna uppbyggingar við Tónatröð. Var afgreiðslu málsins frestað þar til fyrir lægi umsögn Veðurstofu og umferðargreining. Er nú lögð fram umsögn Veðurstofu Íslands dagsett 14. febrúar 2022 um minnisblað GeoTek ehf. dagsett 17. janúar 2022 um jarðvegsaðstæður og byggingarhæfi lóða fyrir Tónatröð. Þá er jafnframt lagt fram minnisblað verkfræðistofunnar Mannvits um umferðargreiningu í tengslum við áhrif af byggingu 70 íbúða við Tónatröð á umferð í aðliggjandi gatnakerfi.
Meirihluti skipulagsráðs samþykkir að heimila umsækjanda að vinna tillögu að deiliskipulagsbreytingu sem byggir á áður innsendum gögnum. Í þeirri vinnu þarf þó að gera ráð fyrir að umfang uppbyggingar minnki þannig að eingöngu verði gert ráð fyrir allt að fjórum húsum en ekki fimm eins og upphafleg tillaga gerði ráð fyrir. Jafnframt þarf að skoða sérstaklega afmörkun svæðisins. Breyting á deiliskipulagi skal einvörðungu ná til svæðis vestan megin við Tónatröð.

Þá er skipulagsfulltrúa falið að halda áfram vinnu við breytingu á gildandi aðalskipulagi til samræmis við ofangreint og jafnframt óska eftir heimild Minjastofnunar til að fjarlægja hús á lóð Tónatraðar 8 í samráði við eigendur.


Ólafur Kjartansson V-lista situr hjá við afgreiðslu málsins og óskar bókað eftirfarandi:

Ég sit hjá vegna þess að ég tel að rangt hafi verið staðið að þessari framkvæmd frá byrjun þegar einum verktaka var falið verkefnið án auglýsingar.