Alþingiskosningar 2021

Málsnúmer 2021060932

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 3737. fundur - 02.09.2021

Erindi dagsett 24. ágúst 2021 frá formanni kjörstjórnar Akureyrar vegna komandi alþingiskosninga þann 25. september nk. Þar kemur fram tillaga kjörstjórnar um að Akureyrarbæ verði skipt í tólf kjördeildir þannig að tíu verði á Akureyri, ein í Hrísey og ein í Grímsey. Á Akureyri verði kjörstaður í Verkmenntaskólanum á Akureyri, í Hrísey verði kjörstaður í Hríseyjarskóla og í Grímsey í Félagsheimilinu Múla. Lagt er til að tveir kjörklefar verði í hverri kjördeild á Akureyri, Hrísey og Grímsey. Þá hefur kjörstjórnin enn fremur ákveðið að leggja til við bæjarráð að kjörfundur standi frá kl. 09:00 til kl. 22:00 á Akureyri, Hrísey og Grímsey. Óskar kjörstjórn eftir því við bæjarráð að ofangreindar tillögur verði samþykktar.
Bæjarráð samþykkir framlagðar tillögur formanns kjörstjórnar vegna komandi Alþingiskosninga þann 25. september nk. með fimm samhljóða atkvæðum.

Bæjarstjórn - 3498. fundur - 21.09.2021

Lagður fram til kynningar listi frá kjörstjórn Akureyrarbæjar með nöfnum 36 aðalmanna vegna starfa í kjördeildum við alþingiskosningar þann 25. september nk.

Bæjarstjórn - 3498. fundur - 21.09.2021

Lagt er til að bæjarlögmanni verði veitt heimild til að afgreiða athugasemdir við kjörskrá sem berast kunna og leiðrétta kjörskrá.
Bæjarstjórn samþykkir tillöguna með 11 samhljóða atkvæðum.

Bæjarráð - 3743. fundur - 14.10.2021

Lagt fram til kynningar bréf móttekið 29. september 2021 frá formanni kjörstjórnar Akureyrarbæjar, Helgu G. Eymundsdóttur. Í bréfinu kemur fram að í alþingiskosningunum sem fram fóru þann 25. september sl. hafi kjörfundur hafist á öllum kjörstöðum Akureyrarbæjar kl. 09:00 og lauk fundi kl. 22:00 á Akureyri, kl. 11:00 í Grímsey og kl. 18:00 í Hrísey. Á kjörskrá voru 14.370 en á kjörstað á kjördag kusu 8.199. Utan kjörfundar greiddu atkvæði 3.201 þannig að samtals greiddu 11.400 atkvæði og kosningaþátttakan 79,33% sem er aðeins minni en í alþingiskosningum 2017 en þá var kjörsókn 81,58%. Sem endranær er ástæða til að hrósa starfsfólki á kjörstað sérstaklega fyrir þeirra framlag til kosninganna en að venju var fumlaus framkoma þeirra og ósérhlífni við undirbúning lykill að vel heppnaðri framkvæmd kosninganna.