Gjaldskrár fræðslusviðs 2019

Málsnúmer 2018080863

Vakta málsnúmer

Fræðsluráð - 16. fundur - 03.09.2018

Lagðar voru fram til kynningar og umræðu tillögur að gjaldskrám fyrir árið 2019.
Umræðunni frestað til næsta fundar.

Fræðsluráð - 18. fundur - 24.09.2018

Árni Konráð Bjarnason forstöðumaður rekstrar fór yfir tillögur um gjaldskrár fyrir árið 2019.

Gert er ráð fyrir hækkun á vistunar- og fæðisgjöldum í leik- og grunnskólum um 3,0%. Þá er einnig lagt til að gjaldskrá Tónlistarskólans hækki um 3,0%.
Rósa Njálsdóttir M-lista, Marsilía Dröfn Sigurðardóttir D-lista og Þuríður Sólveig Árnadóttir áheyrnarfulltrúi V-lista gera svohljóðandi tillögu að breytingu á framlagðri tillögu að gjaldskrá fræðslusviðs:

Lagt er til að ávaxta- og mjólkuráskrift í grunnskólum Akureyrarbæjar verði gjaldfrjáls frá og með 1. janúar 2019. Einnig verði boðið upp á frían hafragraut í morgunmat í öllum grunnskólum Akureyrarbæjar. Jafnframt er lagt til að ekki verði heimiluð hækkun á gjaldskrá vegna hádegisverðar í grunnskólum Akureyrarbæjar.

Meirihluti fræðsluráðs hafnar tillögu fulltrúa M-lista, V-lista og D-lista á þeim forsendum að áætlaður kostnaður tillögunnar liggur ekki fyrir og því ekki hægt að taka afstöðu til málsins.

Rósa Njálsdóttir M-lista, Marsilía Dröfn Sigurðardóttir D-lista og Þuríður Sólveig Árnadóttir áheyrnarfulltrúi V-lista gera svohljóðandi tillögu að breytingu á framlagðri tillögu að gjaldskrá fræðslusviðs:

Lagt er til að ekki verði heimiluð hækkun á gjaldskrá vegna fæðis í grunnskólum Akureyrarbæjar.

Meirihluti fræðsluráðs hafnar tillögunni með þremur atkvæðum gegn atkvæðum Rósu Njálsdóttur M-lista og Marsilíu Drafnar Sigurðardóttur D-lista.

Rósa Njálsdóttir M-lista, Marsilía Dröfn Sigurðardóttir D-lista og Þuríður Sólveig Árnadóttir áheyrnarfulltrúi V-lista leggja fram eftirfarandi bókun:

Lækkun eða afnám fæðisgjalda í grunnskólunum er einn þáttur í því að koma til móts við barnafjölskyldur hvað varðar útgjöld, minnka álag á heimilum og stuðla á þann hátt að því að öll börn myndu hefja sinn skóladag mett og í góðu jafnvægi. Það myndi samrýmast þeim áherslum sem Barnasáttmáli Unicef felur í sér, en eitt af markmiðum hans er að tryggja réttindi barna í daglegu lífi. Akureyri verður fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til að nýta sér innleiðingarlíkan Barnasáttmálans og tekur þátt í tilraunaverkefni við þróun þess.

Meirihluti fræðsluráðs gerir svohljóðandi bókun:

Gengið hefur verið út frá því að gjaldskrá mötuneyta í leikskólum standi undir hráefniskostnaði og gjaldskrá mötuneyta í grunnskólum standi undir bæði hráefnis- og rekstrarkostnaði. Gert er ráð fyrir að 3% hækkunin sem lögð er fram muni mæta auknum hráefniskostnaði í leikskólum og grunnskólum árið 2019. Nú þegar er hafragrautur í boði fyrir grunnskólanemendur í byrjun dags í flestum skólum. Sviðsstjóra hefur verið falið að gera úttekt á málinu og kanna möguleikann á að bjóða upp á hafragraut í öllum grunnskólum bæjarins.

Meirihluti fræðsluráðs samþykkir framlagðar tillögur um 3% hækkun á vistunargjöldum í leik- og grunnskólum. Fulltrúar M-lista og D-lista sátu hjá við afgreiðslu málsins. Fræðsluráð vísar tillögunni til bæjarráðs.

Meirihluti fræðsluráðs samþykkir framlagða tillögu um 3% hækkun á fæðisgjöldum í leik- og grunnskólum. Fulltrúi M-lista og D-lista greiddu atkvæði gegn tillögunni. Fræðsluráð vísar tillögunni til bæjarráðs.

Meirihluti fræðsluráðs samþykkir framlagða tillögu um 3% hækkun á gjaldskrá Tónlistarskólans. Fulltrúi M-lista og D-lista sátu hjá við afgreiðslu tillögunnar. Fræðsluráð vísar tillögunni til bæjarráðs.