Bæjarstjórn

3544. fundur 16. apríl 2024 kl. 16:00 - 17:06 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar
  • Heimir Örn Árnason
  • Hlynur Jóhannsson
  • Ásrún Ýr Gestsdóttir
  • Jón Hjaltason
  • Gunnar Már Gunnarsson
  • Andri Teitsson
  • Hilda Jana Gísladóttir
  • Hulda Elma Eysteinsdóttir
  • Lára Halldóra Eiríksdóttir
  • Sunna Hlín Jóhannesdóttir
Starfsmenn
  • Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri
  • Olga Margrét Kristínard. Cilia lögfræðingur ritaði fundargerð
Fundargerð ritaði: Jón Þór Kristjánsson forstöðumaður þjónustu og þróunar
Dagskrá
Ásrún Ýr Gestsdóttir V-lista sat fundinn í forföllum Jönu Salóme Ingibjargar Jósepsdóttur.

1.Ársreikningur Akureyrarbæjar fyrir árið 2023

Málsnúmer 2023090474Vakta málsnúmer

Liður 1 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 4. apríl 2024:

Lagður fram ársreikningur Akureyrarbæjar fyrir árið 2023.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Davíð Búi Halldórsson frá endurskoðendum bæjarins Enor ehf. sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Þá sátu bæjarfulltrúarnir Halla Björk Reynisdóttir, Lára Halldóra Eiríksdóttir og Gunnar Már Gunnarsson undir þessum dagskrárlið í gegnum fjarfundarbúnað.

Bæjarráð vísar ársreikningi Akureyrarbæjar fyrir árið 2023 til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri kynnti.

Til máls tóku Gunnar Már Gunnarsson, Hilda Jana Gísladóttir, Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Heimir Örn Árnason.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að vísa ársreikningi bæjarins fyrir árið 2023 til bæjarráðs og síðari umræðu í bæjarstjórn.

Hilda Jana Gísladóttir S-lista óskar bókað:

Það er áhyggjuefni að A-hluti Akureyrarbæjar sé rekinn með 454 m.kr. tapi. Þá veldur það vonbrigðum að rekstrargjöld aukist hlutfallslega á milli ára umfram rekstrartekjur, þrátt fyrir stórauknar tekjur. Það er lykilatriði í rekstri bæjarins að verja grunnstoðir í rekstri bæjarins, en sérstaklega nauðsynlegt er að verja félagsþjónustuna og tryggja rekstur skólakerfisins með sæmandi hætti. Þá eiga bæjarbúar rétt á að vera upplýstir um raunverulega rekstrarniðurstöðu í stað þess að ársreikningur Akureyrarbæjar sé notaður í markaðs- og ímyndarherferð sem sendi villandi skilaboð til samfélagsins.


Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson B-lista óska bókað:

Það er full ástæða til að fylgjast vel með þróun fjármála sveitarfélagsins og sýna varkárni í útgjöldum, enda hlutverk okkar að viðhalda stöðugleika og vinna okkur nær sjálfbærri fjármálastjórnun. Útgjöld í A-hluta hafa hækkað meira milli ára en tekjur og niðurstaðan fyrir fjármagnsliði er rúmum 400 milljónum lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir. Miðað við þær framkvæmdir sem fyrirhugað er að ráðast í, og ef ekkert verður gert til að draga úr útgjöldum, þá er viðbúið að halli á rekstri A-hluta muni aukast á næstu árum. Því er raunveruleg hætta á að við fjarlægjumst fremur en nálgumst markmið okkar um að ná sjálfbærni í rekstri. Að endingu hefði þurft að kynna betur breytingar á reikningsskilaaðferðum Norðurorku, bæði gagnvart bæjarfulltrúum og eins í almennri upplýsingagjöf til íbúa þegar ársreikningur sveitarfélagsins var gerður opinber.

2.Breytingar í nefndum - velferðarráð

Málsnúmer 2024040250Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga Jóns Hjaltasonar óflokksbundins um breytingu á skipan fulltrúa í velferðarráði. Halla Birgisdóttir Ottesen verði varaáheyrnarfulltrúi í stað Birgis Eyfjörð Torfasonar.
Bæjarstjórn samþykkir tillöguna með 11 samhljóða atkvæðum.

3.Barnaverndarþjónusta - samningur við Þingeyinga

Málsnúmer 2024030466Vakta málsnúmer

Liður 1 í fundargerð velferðarráðs dagsetri 27. mars 2024:

Lögð fram drög að samningi um barnaverndarþjónustu við fjögur sveitarfélög í Þingeyjarsýslum.

Vilborg Þórarinsdóttir forstöðumaður sat fundinn undir þessum lið.

Velferðarráð samþykkir samninginn fyrir sitt leyti og vísar honum til bæjarstjórnar.

Hulda Elma Eysteinsdóttir kynnti.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að vísa samningnum til síðari umræðu í bæjarstjórn í samræmi við 18. gr. sveitarstjórnarlaga.

4.Göngubrú yfir Glerá - ósk um breytingu á deiliskipulagi Glerár

Málsnúmer 2024011322Vakta málsnúmer

Liður 1 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 10. apríl 2024:

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir Glerá var auglýst frá 14. febrúar til og með 28. mars 2024. Tvær athugasemdir bárust á auglýsingatímanum ásamt umsögnum frá Umhverfisstofnun, Minjastofnun Íslands, Norðurorku og Vegagerðinni.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagsbreytingin verði samþykkt. Er skipulagsfulltrúa falið að útfæra drög að svörum.

Andri Teitsson kynnti.

Til máls tóku Jón Hjaltason og Sunna Hlín Jóhannesdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum framlagða breytingu á deiliskipulagi fyrir Glerá. Jafnframt samþykkir bæjarstjórn tillögu skipulagsfulltrúa að svörum við athugasemdum.

5.Stefna um íbúasamráð - hverfisnefndir

Málsnúmer 2022041947Vakta málsnúmer

Liður 6 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 4. apríl 2024:

Lagt fram minnisblað dagsett 27. mars 2024 varðandi hverfisnefndir Akureyrarbæjar. Ein af aðgerðum stefnu um íbúasamráð sem samþykkt var í bæjarstjórn 6. febrúar sl. gerir ráð fyrir að hverfisnefndir á Akureyri verði lagðar niður og öðrum aðferðum beitt til samráðs við íbúa.

Sumarliði Helgason sviðsstjóri þjónustu- og skipulagssviðs og Jón Þór Kristjánsson forstöðumaður þjónustu og þróunar sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Í samræmi við stefnu um íbúasamráð samþykkir bæjarráð fyrir sitt leyti að fella úr gildi samþykktir fyrir hverfisnefndir á Akureyri, þar sem öðrum fjölbreyttum og markvissum aðferðum verður beitt til samráðs við íbúa. Hverfisráð í Hrísey og Grímsey starfa áfram, en í stefnu um íbúasamráð er gert ráð fyrir auknum stuðningi sveitarfélagsins við þau. Bæjarráð vísar málinu til bæjarstjórnar til umræðu og afgreiðslu.

Heimir Örn Árnason kynnti.

Til máls tóku Gunnar Már Gunnarsson og Ásrún Ýr Gestsdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum í samræmi við stefnu Akureyrarbæjar um íbúasamráð að fella úr gildi samþykkt fyrir hverfisnefndir á Akureyri.

6.Lögreglan á Akureyri

Málsnúmer 2024040320Vakta málsnúmer

Rætt um stöðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra.

Málshefjandi var Hilda Jana Gísladóttir og lagði hún fram bókun fyrir hönd bæjarstjórnar.

Til máls tóku Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Ásrún Ýr Gestsdóttir.


Þrátt fyrir fjölgun íbúa og gríðarlega fjölgun ferðamanna hefur verið bent á að jafn margir lögreglumenn sinni útkalli á Akureyri og nágrenni og var árið 1980, við því sé nauðsynlegt að bregðast og fjölga lögreglumönnum. Ekki aðeins hefur málum á borði embættisins fjölgað heldur eru brotin m.v. upplýsingar frá embættinu alvarlegri og á það m.a. við um ofbeldisbrot, kynferðisbrot og heimilisofbeldi, auk þess sem ofbeldi gegn lögreglumönnum hefur aukist. Bæjarstjórn skorar því á ríkisvaldið að tryggja tafarlausar úrbætur í mönnun lögreglunnar á Norðurlandi eystra.

7.Skýrsla bæjarstjóra

Málsnúmer 2023010626Vakta málsnúmer

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri fór yfir helstu atriði í störfum sínum frá síðasta fundi bæjarstjórnar.
Eftirtaldar fundargerðir eru lagðar fram til kynningar:

Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa 23. og 27. mars, 4. og 11. apríl 2024
Bæjarráð 21. mars , 4. og 11. apríl 2024
Fræðslu- og lýðheilsuráð 25. mars og 8. apríl 2024
Skipulagsráð 27. mars og 10. apríl 2024
Umhverfis- og mannvirkjaráð 19. mars og 9. apríl 2024
Velferðarráð 27. mars og 10. apríl 2024

Hægt er að nálgast fundargerðirnar á heimasíðu Akureyrarbæjar: https://www.akureyri.is/is/stjornkerfi/stjornsysla/fundargerdir

Fundi slitið - kl. 17:06.