Bæjarstjórn

3495. fundur 01. júní 2021 kl. 16:00 - 16:45 Hamrar í Hofi
Nefndarmenn
  • Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar
  • Andri Teitsson
  • Hlynur Jóhannsson
  • Eva Hrund Einarsdóttir
  • Guðmundur Baldvin Guðmundsson
  • Gunnar Gíslason
  • Heimir Haraldsson
  • Hilda Jana Gísladóttir
  • Ingibjörg Ólöf Isaksen
  • Sóley Björk Stefánsdóttir
  • Þórhallur Jónsson
Starfsmenn
  • Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri
  • Kristín Sóley Sigursveinsdóttir fundarritari
Fundargerð ritaði: Kristín Sóley Sigursveinsdóttir forstöðumaður upplýsinga- og þjónustudeildar
Dagskrá
Í upphafi fundar leitaði forseti afbrigða frá útsendri dagskrá til að taka út af dagskrá 1. lið á dagskrá: 2018060500 - Bæjarstjórn Akureyrarbæjar - breytingar í nefndum 2018-2022 ? velferðarráð. Var það samþykkt.

1.Austursíða 2 - deiliskipulagsbreyting

Málsnúmer 2020120326Vakta málsnúmer

Liður 2 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 26. maí 2021:

Lögð fram að nýju tillaga að breytingu á deiliskipulagi sem nær til lóðarinnar Austursíðu 2. Tillagan var auglýst 10. mars með athugasemdafresti til 21. apríl 2021 og bárust 9 athugasemdabréf auk umsagna frá Minjastofnun Íslands, Norðurorku, Vegagerðinni og Landsneti. Þá er jafnframt lögð fram tillaga að svörum við efni innkominna athugasemda og umsagna.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagsbreytingin verði samþykkt með þeim breytingum að gert verði ráð fyrir göngu- og hjólastíg meðfram nýrri aðkomu frá Austursíðu að verslunum, nýrri gönguþverun yfir Austursíðu á móts við Rimasíðu og að háspennulína Landsnets verði merkt inn á skipulagið. Jafnframt er lagt til að tillaga að svörum við athugasemdum verði samþykkt.

Þórhallur Jónsson kynnti tillögu skipulagsráðs. Auk hans tók Sóley Björk Stefánsdóttir til máls.
Meirihluti bæjarstjórnar samþykkir framlagða breytingu á deiliskipulagi sem nær til lóðarinnar Austursíðu 2 með þeim breytingum að gert verði ráð fyrir göngu- og hjólastíg meðfram nýrri aðkomu frá Austursíðu að verslunum, nýrri gönguþverun yfir Austursíðu á móts við Rimasíðu og að háspennulína Landsnets verði merkt inn á skipulagið. Jafnframt samþykkir meirihluti bæjarstjórnar tillögu að svörum við athugasemdum.

Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista situr hjá við afgreiðsluna.

2.Breyting á deiliskipulagi við Skarðshlíð og Sunnuhlíð

Málsnúmer 2021050998Vakta málsnúmer

Liður 3 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 26. maí 2021:

Lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Fosshlíðar-Mánahlíðar-Sunnuhlíðar-Barmahlíðar. Breytingin nær yfir götu og gangstéttir Skarðshlíðar frá gatnamótum við Fosshlíð að Sunnuhlíð og einnig hluta Sunnuhlíðar, frá bílastæði við verslunarmiðstöðina og vestur fyrir lóðina Sunnuhlíð 10. Í breytingunni er verið að breyta útfærslu og legu gatna og stíga með það að markmiði að auka öryggi óvarinna vegfarenda og lækka umferðarhraða.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að breytingin verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Þórhallur Jónsson kynnti tillögu skipulagsráðs.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að breyting á deiliskipulagi Fosshlíðar-Mánahlíðar-Sunnuhlíðar-Barmahlíðar verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Breytingin nær yfir götu og gangstéttir Skarðshlíðar frá gatnamótum við Fosshlíð að Sunnuhlíð og einnig hluta Sunnuhlíðar, frá bílastæði við verslunarmiðstöðina og vestur fyrir lóðina Sunnuhlíð 10. Í breytingunni er verið að breyta útfærslu og legu gatna og stíga með það að markmiði að auka öryggi óvarinna vegfarenda og lækka umferðarhraða.

3.Gatnagerðargjöld 2021

Málsnúmer 2020120094Vakta málsnúmer

Liður 3 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 27. maí 2021:

Liður 1 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 26. maí 2021:

Lagt fram minnisblað með tillögum að breytingu á gr. 4.3 í gjaldskrá gatnagerðargjalda.

Skipulagsráð leggur til við bæjarráð að breyting verði gerð á gjaldskrá gatnagerðargjalda þannig að gjald hækki og verði fyrir parhús-raðhús 15%, fyrir fjölbýlishús 12,5% og gerður verði nýr liður fyrir sameiginlega bílakjallara fjöleignahúsa og gjald verði 5%.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir tillögu skipulagsráðs fyrir sitt leyti með fimm samhljóða atkvæðum og vísar málinu til afgreiðslu bæjarstjórnar.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson kynnti breytingatillögurnar. Auk hans tók Andri Teitsson til máls.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að gjaldskrá gatnagerðargjalda breytist þannig að gjald hækki og verði fyrir parhús-raðhús 15%, fyrir fjölbýlishús 12,5% og gerður verði nýr liður fyrir sameiginlega bílakjallara fjöleignahúsa og gjald verði 5%.


4.Hvítbók um byggðamál

Málsnúmer 2021051454Vakta málsnúmer

Rætt um Hvítbók um byggðamál, drög að stefnumótandi byggðaáætlun til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára.

Hilda Jana Gísladóttir hóf umræðuna. Auk hennar tóku til máls Eva Hrund Einarsdóttir, Ingibjörg Ólöf Isaksen og Andri Teitsson.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum eftirfarandi umsögn um Hvítbók um byggðamál:

Bæjarstjórn Akureyrarbæjar lýsir yfir almennri ánægju með inntak hvítbókar um byggðamál, þau markmið sem þar eru sett fram sem og það víðtæka samráð sem viðhaft er við mótun hennar. Bæjarstjórn fagnar sérstaklega aðgerð C4 sem miðar m.a. að því að mótuð verði stefna sem skilgreini hlutverk Akureyrar sem stærsta þéttbýliskjarnans á landsbyggðinni og stuðli að uppbyggingu borgarsvæðis á grunni Akureyrar sem geti boðið upp á fjölbreytileika í þjónustu, menningu og atvinnutækifærum, sem í dag er einungis að finna á höfuðborgarsvæðinu. Slíkt sé gert með það að markmiði að jafna búsetuþróun innanlands og styrkja þannig samkeppnishæfni landsins alls. Þá fagnar bæjarstjórn verkefni B9 um miðstöð norðurslóðamála þar sem markmiðið er að styrkja stöðu Akureyrar sem miðstöðvar norðurslóða á landsvísu og efla samstarf þeirra fjölmörgu aðila sem hafa aðkomu að málaflokknum. Bæjarstjórn telur hins vegar að markmiðum fylgi of sjaldan fjármagnaðar aðgerðir.

Bæjarstjórn Akureyrarbæjar sendir eftirfarandi ábendingar varðandi tilteknar aðgerðir og/eða nýjar aðgerðir.

- A3: Staðsetja ætti björgunarþyrlu á Akureyri.

- A9: Mjög mikilvægt verkefni um stuðning við verslun í strjálbýli.

- A10: Ferjur til og frá Hrísey og Grímsey verði skilgreindar sem þjóðferjuleiðir og verði hluti af hinu almenna vegakerfi og þ.a.l. gjaldfrjálsar.

- A14: Mikilvægt er að meta kostnaðarauka fyrir sveitarfélög ef við á t.d. ráðstöfun fjármuna til grunnskóla í tengslum við nám án aðgreiningar.

- B3: Landshlutasamtökum sveitarfélaga verði falið skýrt, fjármagnað hlutverk.

- B7: Árangursmælikvarði verði breytt og frekar horft til fjölda starfa sem ráðið er í utan höfuðborgarsvæðisins.

- Farið verði í jöfnun eldsneytisverðs á flugvöllum þannig að aðrir millilandaflugvellir en í Keflavík, þ.e.a.s. á Akureyri og Egilsstöðum, verði raunhæfir kostir fyrir millilandaflug. Ekki verði dregið úr stuðningi við Flugþróunarsjóð.

- Markvissar, fjármagnaðar aðgerðir um dreifingu ferðamanna um landið vantar.

5.Skýrsla bæjarstjóra

Málsnúmer 2021010534Vakta málsnúmer

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri fór yfir helstu atriði í störfum sínum frá síðasta fundi bæjarstjórnar.
Eftirtaldar fundargerðir eru lagðar fram til kynningar:

Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa 21. og 27. maí 2021
Bæjarráð 20. og 27. maí 2021
Frístundaráð 19. maí 2021
Fræðsluráð 17. maí 2021
Skipulagsráð 26. maí 2021
Stjórn Akureyrarstofu 27. maí 2021
Velferðarráð 19. maí 2021

Hægt er að nálgast fundargerðirnar á heimasíðu Akureyrarbæjar: https://www.akureyri.is/is/stjornkerfi/stjornsysla/fundargerdir

Fundi slitið - kl. 16:45.