Bæjarstjórn

3426. fundur 19. desember 2017 kl. 16:00 - 16:10 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
 • Matthías Rögnvaldsson forseti bæjarstjórnar
 • Ingibjörg Ólöf Isaksen
 • Preben Jón Pétursson
 • Dagbjört Elín Pálsdóttir
 • Guðmundur Baldvin Guðmundsson
 • Sigríður Huld Jónsdóttir
 • Silja Dögg Baldursdóttir
 • Eva Hrund Einarsdóttir
 • Gunnar Gíslason
 • Sigurjón Jóhannesson
 • Sóley Björk Stefánsdóttir
Starfsmenn
 • Dagný Magnea Harðardóttir fundarritari
Fundargerð ritaði: Dagný Magnea Harðardóttir forstöðumaður upplýsinga- og þjónustudeildar
Dagskrá
Í upphafi fundar leitaði forseti afbrigða til að taka á dagskrá liðinn: Fjárlagafrumvarp 2018 - heilbrigðismál á Norðurlandi - ályktun, sem yrði 1. liður á dagskrá. Var það samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.
Sigurjón Jóhannesson D-lista mætti í forföllum Baldvins Valdemarssonar.

1.Fjárlagafrumvarp 2018 - heilbrigðismál á Norðurlandi - ályktun

Málsnúmer 2017120282Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn Akureyrarbæjar lýsir yfir miklum vonbrigðum með það fjármagn sem ætlað er til heilbrigðismála á Norðurlandi í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er sérstök áhersla lögð á heilbrigðismál og að allir landsmenn óháð búsetu eigi að njóta góðrar þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Það skýtur því skökku við að Sjúkrahúsið á Akureyri skuli aðeins fá 47 milljónir í raunaukningu til reksturs eða um 0,6%, þegar það liggur fyrir að aukin þjónustuþörf hefur verið á bilinu 2-4% árlega undanfarin ár. Þetta þýðir að það vantar allt að 100 milljónir króna í almennan rekstur svo SAk geti veitt íbúum á þjónustusvæði sínu nauðsynlega þjónustu. Í þessu sambandi vill bæjarstjórn benda á að á liðnum árum hafa stjórnendur og starfsfólk SAk sýnt mikið aðhald og ráðdeild í rekstri og því er full ástæða til að taka fullt mark á ábendingum þeirra sem fram hafa komið síðustu daga. Þá leggur bæjarstjórn ríka áherslu á að samhliða uppbyggingu á húsnæði Landspítalans verði hafist handa við byggingu nýrrar legudeildarálmu við SAk.

Það vekur einnig furðu að í frumvarpi til fjárlaga skuli vera komin fram hagræðingarkrafa á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á sama tíma og það liggur fyrir að þjónustuþörfin hefur aukist verulega og framlög eru aukin til heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu.

Bæjarstjórn hvetur þingmenn kjördæmisins og ráðherra fjármála og heilbrigðismála til þess að standa fyrir breytingum á fjárlagafrumvarpinu svo snúa megi þessari þróun við sem er í hrópandi mótsögn við stefnu ríkisstjórnarinnar sem birtist í nýsamþykktum sáttmála hennar.
Bæjarstjórn samþykkti framlagða ályktun með 11 samhljóða atkvæðum.

2.Aðalskipulag Akureyrar 2005-2018 - stækkun á íbúðasvæði við Klettaborg

Málsnúmer 2017120073Vakta málsnúmer

2. liður í fundargerð skipulagsráðs dagsett 13. desember 2017:

Lagt er til að Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 verði breytt til samræmis við tillögu á Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 og íbúðasvæði í Klettaborg stækkað.

Skipulagsráð telur að hér sé um að ræða óverulega breytingu á gildandi aðalskipulagi, sem hafi ekki verulegar breytingar á landnotkun í för með sér, og sé ekki líkleg til að hafa mikil áhrif á aðila eða á stór svæði. Tillagan er auk þess í samræmi við auglýsta tillögu að Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030.

Að þessu athuguðu leggur skipulagsráð til við bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt og afgreidd samkvæmt 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og að sviðsstjóra verði falið að senda rökstudda tillögu um breytinguna til Skipulagsstofnunar.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsráðs með 11 samhljóða atkvæðum.

3.Hesjuvellir landnr. 212076 - deiliskipulag

Málsnúmer 2015080002Vakta málsnúmer

4. liður í fundargerð skipulagsráðs dagsett 13. desember 2017:

Skipulagsnefnd heimilaði umsækjanda þann 10. október 2012 að leggja fram tillögu að deiliskipulagi eignarlandsins Hesjuvellir landnúmer 212076. Heimilt yrði að reisa þar eitt íbúðarhús ásamt bílgeymslu, allt að 350 fermetrar að flatarmáli.

Skipulagslýsing var auglýst 14. október 2015 og send til umsagnar. Skipulagsnefnd vísaði þann 11. nóvember 2015 athugasemdum sem þá bárust til umsækjanda til frekari skoðunar og úrvinnslu við gerð deiliskipulagsins.

Tillaga að deiliskipulagi er dagsett 3. nóvember 2017 og unnin af Ágústi Hafsteinssyni hjá Form og einnig er lögð fram athugun á fornleifum í sama landi dagsett í október 2016 og unnin af Katrínu Gunnarsdóttur fornleifafræðingi.

Drög að deiliskipulagi voru kynnt í samræmi við 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga þann 22. nóvember 2017. Ein umsögn barst, frá Minjastofnun, sem gerir ekki athugasemd við tillöguna.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði auglýst samkvæmt 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsráðs með 11 samhljóða atkvæðum.

4.Hafnarsvæði sunnan Glerár - umsókn um breytingar á deiliskipulagi

Málsnúmer 2015030249Vakta málsnúmer

11. liður í fundargerð skipulagsráðs dagsett 13. desember 2017:

Erindi dagsett 25. apríl 2015 þar sem Pétur Ólafsson f.h. Hafnasamlags Norðurlands, kt. 650371-2919, sækir um breytingar á deiliskipulagi fyrir lóðir nr. 2-4 við Skipatanga.

Skipulagstillagan var auglýst frá 14. desember 2016 með athugasemdafresti til 25. janúar 2017. Auglýsingar birtust í Lögbirtingablaði og Dagskránni. Skipulagsgögn voru aðgengileg í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar og á heimasíðu skipulagsdeildar.

Ein umsögn barst.

1) Norðurorka, dagsett 15. desember 2016.

Breytingin hefur ekki áhrif á veitur Norðurorku.

Ein athugasemd barst.

1) Hverfisnefnd Oddeyrar, dagsett 6. febrúar 2017.

Hverfisnefndin leggst alfarið gegn því að deiliskipulagi sé breytt á þessum stað meðan ekki er hægt að breyta á öðrum stöðum á Oddeyri vegna vinnu við fyrirhugað rammaskipulag. Þá virðast vinnubrögðin vera þannig að þarna sé landnotkun breytt í bága við gildandi skipulag (gámastæðum raðað á athafnasvæði fiskihafnar) og skipulaginu breytt eftir á. Nauðsynlegt er að taka afgerandi afstöðu til starfsemi á hafnarsvæðum. Gámasvæði við Hjalteyrargötu er þannig úr öllum takti við íbúðasvæði í grenndinni og það verður að fara annað. Farið er fram á að deiliskipulagstillagan verði ekki tekin til efnislegrar afgreiðslu fyrr en búið er að klára ferlið sem hófst með gerð rammaskipulagsins.

Skipulagsráð frestaði afgreiðslu erindisins á fundi 8. febrúar 2017 þar til rammaskipulag Oddeyrar yrði staðfest.

Svar við athugasemd 1).

Þar til uppbygging á Dysnesi er komin til framkvæmdar er óhjákvæmilegt að þjónusta við gámaflutninga verði áfram á Akureyri enda hafa auknir strandflutningar skapað betri rekstrarmöguleika fyrir fyrirtæki á svæðinu.

Ekki er möguleiki að byggja upp gámasvæði vegna plássleysis í Krossanesi og því er nauðsynlegt að þau verði þróuð áfram á þeim svæðum sem þau eru í dag þó að nábýlið sé við íbúðabyggð neðst á Oddeyri.Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt og sviðsstjóra skipulagssviðs falið að annast gildistöku hennar samkvæmt 42. grein skipulagslaga nr. 123/2010 með síðari breytingum.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsráðs með 11 samhljóða atkvæðum.

5.Giljaskóli - lýsing og umferðarmál

Málsnúmer 2016120149Vakta málsnúmer

12. liður í fundargerð skipulagsráðs dagsett 13. desember 2017:

Erindi dagsett 13. desember 2016 þar sem skóla- og nemendaráð Giljaskóla óska eftir því við bæjaryfirvöld Akureyrarbæjar að bætt verði úr lýsingu og umferðaröryggismálum við Giljaskóla, leikskólann Kiðagil og Íþróttamiðstöð Giljaskóla.

Skipulagsráð heimilaði umsækjanda að leggja fram tillögu að breytingu að deiliskipulagi á fundi 28. júní 2017.

Tillagan er dagsett 18. október 2017 og unnin af Ágústi Hafsteinssyni hjá Form.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði auglýst samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsráðs með 11 samhljóða atkvæðum.

6.Orlofsbyggð norðan Kjarnalundar - breytingar á deiliskipulagi

Málsnúmer 2017110118Vakta málsnúmer

14. liður í fundargerð skipulagsráðs dagsett 13. desember 2017:

Erindi dagsett 8. nóvember 2017 þar sem Árni Árnason fyrir hönd Félags sumarhúsaeigenda í Kjarnabyggð, kt. 470504-2420, sækir um breytingu á deiliskipulagi fyrir hús 1-9 við Götu mánans og 1-16 við Götu norðurljósanna. Óskað er eftir að leyfilegri hámarksstærð húsanna verði breytt. Skipulagsráð heimilaði umsækjanda að leggja fram tillögu að deiliskipulagsbreytingu sem unnin verði í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Í nýju erindi dagsett 4. desember 2017 er óskað eftir að breytingin verði aðeins fyrir Götu norðurljósanna nr. 9 og verði grenndarkynnt. Tillagan er dagsett 5. desember 2017 og unnin af Árna Ólafssyni hjá Teiknistofu Gylfa Guðjónssonar og félaga ehf.

Fyrir liggur að eigendur húsa á lóðinni eru samþykkir umbeðinni breytingu.

Skipulagsráð leggur því til við bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt í samræmi við 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem breytingin er óveruleg og hefur ekki áhrif á aðra en umsækjanda og Akureyrarbæ, og sviðsstjóra skipulagssviðs verði falið að annast gildistöku hennar samkvæmt 42. grein skipulagslaga nr. 123/2010 með síðari breytingum.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsráðs með 11 samhljóða atkvæðum.

Fundi slitið - kl. 16:10.