Samþykkt fyrir Húsverndarsjóð

 

Ekki verður úthlutað úr Húsverndarsjóði í ár.

 

1. gr.

Tilgangur sjóðsins er að vinna að verndun húsa og mannvirkja innan lögsagnarumdæmis Akureyrar. Við mat á umsóknum og úthlutun styrkja skal hafa til hliðsjónar gildandi lög um Menningarminjar m.a. með því að stuðla að varðveislu verndaðra húsa og annarra eldri húsa og mannvirkja með viðurkenningum og/eða framlögum eftir nánari ákvörðun sjóðsstjórnar.

2. gr.

Stjórn Akureyrarstofu er stjórn sjóðsins.

3. gr.

Ráðstöfunarfé sjóðsins ákvarðast af framlagi því sem fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar gerir ráð fyrir árlega sem og gjöfum og öðrum framlögum.

4. gr.

Sjóðurinn stuðlar að varðveislu eldri húsa með eftirfarandi hætti:

a) Með framlögum til viðhalds og endurbóta friðlýstra húsa og mannvirkja, annarra en þeirra sem eru í eigu Akureyrarbæjar.

b) Með framlögum til viðhalds og endurbóta friðaðra húsa ásamt mannvirkjum sem teljast hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi skv. lögum um Menningarminjar.

c) Með sérstökum viðurkenningum, heiðursskjali eða verðlaunagrip til þeirra sem hafa gert sérstakt átak í þessum efnum.

Styrkjunum er ætlað að koma til móts við viðbótarkostnað sem til fellur vegna þess að húsið er friðlýst, friðað eða er talið hafa varðveislugildi.

5. gr.

Umsóknir um framlög úr sjóðnum berist sjóðsstjórn fyrir 1. mars á hverju ári. Með styrkumsókn fylgi upplýsingar um áætlaðar framkvæmdir og kostnað. Leita skal umsagnar skipulagsdeildar  og Minjasafnsins á Akureyri við vinnslu á styrkumsóknum. Stefnt skal að því að stjórn sjóðsins afgreiði umsóknir fyrir 1. maí á hverju ári. Ekki er hægt að sækja um veitingu viðurkenningar úr sjóðnum.

6. gr.
Styrkir eru greiddir út að undangenginni úttekt skipulagsdeildar Akureyrar á framgangi og gæðum verkefnisins og gildir styrkurinn í tvö almanaksár eftir ákvörðun stjórnar Akureyrarstofu.

7. gr.
Stjórn sjóðsins veitir viðurkenningar (sbr. 4. grein c-lið), þegar ástæða þykir til að fengnum tillögum og umsögnum skipulagsdeildar, Akureyrarstofu og Minjasafnsins á Akureyri. Tillögum um viðurkenningar skal skila til sjóðsstjórnar fyrir 1. apríl ár hvert.

Einnig veitir stjórnin viðurkenningar fyrir hönnun nýbygginga, þegar ástæða þykir til. Meta skal byggingartæknileg og fagurfræðileg atriði húss ásamt því að húsið samræmist vel umhverfinu sé það hluti af afmarkaðri heild.

8. gr.
Stjórn Húsverndarsjóðsins skal fylgjast með málefnum húsverndar í bænum og vera ráðgefandi fyrir bæjarstjórn um slík mál.


Greinargerð:

Grundvallarhugsun í öllum styrkjum til húsverndar er að koma til móts við viðbótarkostnað sem hlýst af friðlýsingu húsa og mannvirkja. Til dæmis má taka: Skipta þarf um glugga og útidyrahurðir í húsinu sem er hluti af viðhaldi hverrar eignar en þar sem húsið er friðlýst þarf að láta smíða glugga og hurðir með viðurkenndu lagi sem kostar húseigandann hlutfallslega meira en ef hann tæki t.d. staðlaða, fjöldaframleidda glugga og hurðir.

Húsafriðunarstyrkjum er þannig ætlað að koma til móts við þann aukakostnað sem eigandi hefur af viðhaldi á grundvelli friðlýsingar hússins. Stundum vilja eigendur húsa sem hafa varðveislugildi halda í upprunalegt útlit við endurbætur og er sjálfsagt að koma til móts við þann vilja með styrkveitingu ef ráðstöfunarfé leyfir.

 

Samþykkt í stjórn Akureyrarstofu 25. nóvember 2015

Samþykkt í bæjarstjórn 1. desember 2015

Síðast uppfært 11. október 2022