Fara í aðalefni  

Reglur Akureyrarkaupstaðar vegna unglingadansleikja

1. gr.

Reglur þessar eiga við um dansleiki fyrir ungmenni á aldrinum 14-17 ára. Miðað er við fæðingarár en ekki fæðingardag.

2. gr.

Í samræmi við 23. gr. reglugerðar um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald veitir bæjarlögmaður sýslumanni umsögn vegna umsókna um leyfi til að standa fyrir unglingadansleikjum.

3. gr.

Samfélags- og mannréttindaráð samþykkir að í umsögnum bæjarlögmanns séu sett eftirfarandi skilyrði:

Vitnað verði í 29. gr. lögreglusamþykktar fyrir Akureyrarkaupstað en þar segir:

Um útivistartíma barna og ungmenna gilda ákvæði barnaverndarlaga og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra. Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir kl. 20.00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir kl. 22.00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir. Aldursmörk þessa ákvæðis miðast við fæðingarár en ekki fæðingardag.

Auk þess verði eftirfarandi skilyrði sett fyrir unglingadansleikjum:

  1. Dansleikir verði áfengis- og vímuefnalausar skemmtanir.
  2. Setja skal efri og neðri aldursmörk á dansleiki.
  3. Áfengisbarir  verði lokaðir og breitt verði yfir bjórdælur og áfengisauglýsingar, þannig að þær sjáist ekki.
  4. Ströng dyravarsla verði og auglýst að framvísa verði skilríkjum við innganginn. Dyraverðir skulu hafa tilskilin réttindi.
  5. Skemmtikraftar og dansleikjahaldarar mega ekki vera undir áhrifum áfengis- og vímuefna.
  6. Innihald skemmtana sem boðið er upp á skal hæfa aldri og þroska barnanna.
  7. Foreldrar fái í eftirlitsskyni frían aðgang að dansleikjum.
  8. Dansleiki verður að auglýsa í bæjarmiðlum, auglýsingar í samfélagsmiðlum s.s. Facebook duga ekki einar og sér.
  9. Í auglýsingum í bæjarmiðlum verður að taka sérstaklega fram skilyrði 1. tl., 2. tl., 4. tl. og 7. tl.

Samþykkt í samfélags- og mannréttindaráði 16.  febrúar 2011
Samþykkt í bæjarstjórn 1. mars 2011

Síðast uppfært 22. júní 2017
Opna/loka valmynd