Opið allan sólarhringinn í Hlíðarfjalli

Mynd: Auðunn Níelsson.
Mynd: Auðunn Níelsson.

Ákveðið hefur verið að framlengja skíðaveturinn í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar en þar eru nú einstakar aðstæður til skíðaiðkunar, nægur snjór, gott færi og gott veður. Formlega lýkur skíðavetrinum nú um helgina en skíðalyfturnar verða ræstar aftur kl. 12 á hádegi föstudaginn 2. maí og þær látnar ganga viðstöðulaust til miðnættis laugardaginn 3. maí.

Fólk getur því rennt sér í vorrökkrinu aðfaranótt laugardagsins og fagnað dagrenningu á laugardagsmorgun á skíðum. Búast má við ákaflega fallegri birtu í Hlíðarfjalli, appelsínugulri, bleikri og blárri, þegar sólin rennir sér upp fyrir brúnir Vaðlaheiðar og kastar morgungeislum sínum á skíðabrautirnar í Hlíðarfjalli.

Veður var óhagstætt mestalla páskana í Hlíðarfjalli en nýja brekkan frá Skíðastöðum niður að orlofshúsabyggðinni við Hálönd sannaði þá gildi sitt og naut mikilla vinsælda, enda afskaplega skemmtileg og löng brekka sem býður upp á frábært útsýni fyrir síðafólk niður til Akureyrar og út Eyjafjörð. Nú um helgina verða Andrésar andar leikarnir haldnir í 39. sinn í Hlíðarfjalli við kjöraðstæður og búist er við um 2.500 manns til bæjarins af því tilefni.

Opið verður sem áður segir frá kl. 12.00 á hádegi föstudaginn 2. maí til kl. 24.00 á miðnætti laugardaginn 3. maí.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan