Hugað að jólum í Kjarnaskógi

Starfsmenn skógræktarfélagsins.
Starfsmenn skógræktarfélagsins.

Starfsmenn Skógræktarfélags Eyfirðinga eru í óða önn að undirbúa jólavertíðina á verkstæði félagsins í Kjarnaskógi. Smíðaðir eru sérstakir kassar og sett í þá jólatré sem skreyta götur og gangstéttar í bænum. Ingólfur Jóhannson framkvæmdastjóri skógræktarfélagsins segir að flest trén fari í miðbæinn en að alltaf sé meira og meira um að fólk eða fyrirtæki taki sig saman og lífgi upp á götumyndina fyrir jólin, til dæmis eigendur húsnæðis í iðnaðarhverfum.

Starfsmennirnir reyna að meta hvað hentar á hverjum stað en algengast að trén í kössunum séu á bilinu 1,5-3 metrar á hæð. Kassarnir eru keyrðir á staðinn, þeim komið haganlega fyrir og þeir síðan sóttir aftur eftir áramótin eða eftir samkomulagi og endurnýttir fyrir næsta ár. Jólatré í kassa kostar 17.000 kr. með vsk og er hægt að hafa samband við skógræktarfélagið til að panta sér einn slíkan.

Ingólfur segir að helstu verkefni starfsmanna undanfarið hafi verið að grisja í Kjarnaskógi, klippa frá stígum og draga út greinar. Einnig er verið að smíða bekki og sorpkassa fyrir nýtt leiksvæði og yfirfara vélar fyrir veturinn. Verið er að yfirfara snjótroða félagsins og gera hann kláran fyrir veturinn því nú styttist væntanlega í að troða þurfi gönguskíðabrautir. Innan tíðar verður farið að huga að því að útvega stærri jólatré, svokölluð torgtré, og á aðventunni verður fólki að venju boðið að koma í Laugalandsskóg að fella sitt eigið jólatré. Þangað koma gjarnan fjölskyldur og vinnustaðahópar og eiga góða stund saman við að velja tré.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan