Vinnu við að bæta umferðaröryggi miðar vel

Fyrstu vísbendingar benda til þess að skilti með upplýsingum um raunhraða ökutækja, sem nýlega voru sett við Hörgárbraut, geri gagn með því að stuðla að lækkun umferðarhraða.

Skiltin voru sett niður í byrjun október sem liður í aðgerðaáætlun til að bæta umferðaröryggi á svæðinu. Þau gefa ökumanni upplýsingar um raunhraða og bros- eða fýlukarl eftir því hvort ekið er undir eða yfir settum hámarkshraða. Á sama tíma hefur starfsfólk bæjarins gert hraðamælingar sem sýna að meðalhraði hafi lækkað um 5km/klst með tilkomu skiltanna. 

Að undanförnu hefur einnig verið lögð áhersla á að bæta og endurnýja merkingar við Hörgárbrautina. Þá var súlublæöspum plantað í miðeyju, en talið er að tré á milli akreina auki þéttbýlisupplifun ökumanna og dragi úr ökuhraða.

Næstu skref eru að setja upp hraða- og rauðljósamyndavél við gangbrautarljós við Stórholt. Á næstu dögum hefst vinna við steyptar undirstöður ásamt lagnavinnu svo öllum undirbúningi sé lokið þegar myndavélabúnaðurinn berst.

Búist er við því að myndavélabúnaðurinn verði kominn í gagnið fyrir lok árs. Á liðnum mánuðum hefur farið fram mikil undirbúningsvinna í tengslum við virkni búnaðarins í þessu umhverfi og samspil hans við aðrar aðgerðir á svæðinu. Verkefnið er samstarf Vegagerðarinnar, Akureyrarbæjar og lögreglunnar á Norðurlandi eystra.

Bæjarstjórn samþykkti í vor tillögur að úrbótum til að auka umferðaröryggi á Hörgábraut milli Glerár og Undirhlíðar. Mikil umferð er alla jafna um þennan kafla, sem er hluti af Þjóðvegi 1 í gegnum bæinn, og hafa orðið of mörg slys og óhöpp þarna á undanförnum árum. Ákveðið var að bregðast við og hefur síðustu mánuði verið unnið samkvæmt áætlun að aðgerðum sem eru til þess fallnar að lækka umferðarhraða og koma í veg fyrir að fólk aki á móti rauðu ljósi.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan