Viðburðadagatalið sem margir bíða spenntir eftir

Undirbúningur fyrir sýninguna Leikur í list í Listasafninu á Akureyri. Ljósmynd: Heiða Björk Vilhjál…
Undirbúningur fyrir sýninguna Leikur í list í Listasafninu á Akureyri. Ljósmynd: Heiða Björk Vilhjálmsdóttir.

Viðburðadagatal Barnamenningarhátíðar er nú sýnilegt á barnamenning.is. Þar eru birtar upplýsingar um fjölda skemmtilegra viðburða og sýninga sem hvetja börn og ungmenni til virkrar þátttöku í menningarstarfi og veita þeim tækifæri til að njóta lista og menningar.

Barnamenningarhátíð á Akureyri er nú haldin í 6. sinn og stendur allan aprílmánuð. Þátttaka barna og ungmenna er þeim að kostnaðarlausu.

Fyrr á árinu styrkti bæjarráð 16 verkefni á hátíðinni en alls eru um 40 viðburðir skráðir í ár. Meðal viðburða eru Silent Disco á Amtsbókasafninu, sýning á verkum barna í Húsi Hákarla-Jörundar í Hrísey, Tónleikar í Hofi með Páli Óskari, Ofurhetjuperl með Snorra Valdemar, Hæfileikakeppni Akureyrar og margt fleira.

Almar Alfreðsson, verkefnastjóri hátíðarinnar, segir að hátíðin hafi vaxið og dafnað vel í gegnum árin. Þátttaka skóla, stofnana og einkaaðila sé alltaf að aukast og bæjarbúar, sérstaklega unga kynslóðin, bíði spenntir eftir viðburðadagatali hátíðarinnar. Hann hvetur foreldra til að nýta tækifærið og fara með börnum á listsýningarnar sem í boði eru.

Hægt verður að fylgjast með uppákomum á Barnamenningarhátíð á samfélagsmiðlum Akureyrarbæjar á Facebook og Instagram. Einnig er mælt með að gestir hátíðarinnar noti myllumerkið #barnamenningak.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan