Vel heppnaður íbúafundur í Hrísey

Einn hópurinn í hópavinnunni. Mynd: Þórgnýr Dýrfjörð.
Einn hópurinn í hópavinnunni. Mynd: Þórgnýr Dýrfjörð.

Síðasta miðvikudag, 30. janúar, var haldinn vel sóttur íbúafundur í Hrísey á vegum verkefnisins "Brothættar byggðir".

Á fundinum fór Helga Íris Ingólfsdóttir yfir meginmarkmið verkefnisins sem skilgreind voru á íbúaþingi við upphaf þess á árinu 2015. Markmiðin eru sett fram í þremur meginflokkum:

  • Aðlaðandi og aðgengilegt eyjasamfélag
  • Fjölbreytt atvinnulíf
  • Sterkir innviðir

Á fundinum var unnið að endurskoðun markmiðanna og skoðað hvort bæta ætti við nýjum markmiðum eða aðgerðum. Meðal nýrra aðgerða sem samþykkt var að bæta inn í verkefnið voru ljósleiðari til Hríseyjar, átak í markaðssetningu með fjölgun íbúa og atvinnutækifæra að leiðarljósi og að efla Hlein sem vinnuaðstöðu fyrir sjálfstætt starfandi fólk eða þá sem stunda fjarvinnu. Þá var mikið um það rætt á fundinum að tími væri kominn á orkuskipti í samgöngum til og frá Hrísey með því að fá nýja ferju sem gengi eingöngu fyrir rafmagni. Góð þátttaka var í vinnu við endurskoðun meginmarkmiða verkefnisins sem fram fór í hópavinnu.

Undir hatti verkefnisins eru árlega veittir styrkir til þróunar- og nýsköpunarverkefna í eyjunni og fór Helga Íris sérstaklega yfir stöðu þeirra verkefna sem fengu styrk á síðasta ári en þá fengu 9 verkefni styrki fyrir samtals 7,6 m.kr. Þau eru mislangt á veg komin enda ólík að gerð og umfangi. Sem dæmi um verkefni sem hlutu styrk má nefna tilraunaverkefni í að laða lunda aftur til Hríseyjar, þróun tækjabúnaðar til að framleiða hvannarolíu, samstarfsverkefni Hríseyjarskóla og Grímseyjarskóla og kaup á gróðurhúsi til matvæla framleiðslu í Hrísey.

Unnið verður úr niðurstöðum fundarins og þær lagðar fyrir íbúa í Hrísey til staðfestingar.

Á sunnudag verður sambærilegur fundur á vegum "Brothættra byggða" haldinn í Grímsey.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan