Veist þú um eldra fólk sem þarf aðstoð?

Fallegur vetrardagur á Akureyri. Mynd: María Helena Tryggvadóttir
Fallegur vetrardagur á Akureyri. Mynd: María Helena Tryggvadóttir

Starfsfólk Akureyrarbæjar og ríkisins sem á það sameiginlegt að veita öldruðu fólki sem býr heima þjónustu hefur unnið náið saman frá því samkomubannið skall á.

Starfsfólk heimaþjónustu hjá búsetusviði Akureyrarbæjar, dagþjálfunar og tímabundinna dvala í Hlíð og heimahjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands eiga daglega samráðsfundi til að meta stöðuna, auka samvinnu og útfæra þjónustu við sameiginlega skjólstæðinga. „Þetta er mikilvægur hlekkur í samfelldri þjónustu og byggir á góðu samstarfi sem hefur verið þarna á milli í mörg ár,“ segir Karólína Gunnarsdóttir, sviðsstjóri búsetusviðs.

Starfsfólk þessara þjónustueininga er í símasambandi við skjólstæðinga sína sem hafa lent í þjónustuskerðingu vegna Covid-19 faraldursins. „Starfsfólk heilsueflandi heimsókna hjá HSN er einnig í sambandi við fólk á svæðinu sem er eldra en 80 ára og er ekki með þjónustu. Með þessu erum við í sameiningu að setja okkur í samband við flesta eldri borgara á okkar svæði, taka stöðuna og heyra hljóðið í fólki,“ segir Karólína.

Hún segir að markmiðið sé að ná til sem flestra. „Ef þið vitið af eldra fólki sem þarf einhverja aðstoð, þá má endilega láta vita í síma 460-1410 milli klukkan 9 og 15 eða senda póst á netfangið afgreidslabusetusvid@akureyri.is. Þá verður í kjölfarið haft samband við viðkomandi,“ segir Karólína.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan