Vega- og stígagerð í desember

Krókeyri til norðurs.
Krókeyri til norðurs.

Nýverið hófust framkvæmdir við að endurgera gamla þjóðveginn um Krókeyri. Unnið er að endurgerð á allri götunni ásamt nýjum 4,5 metra breiðum göngu- og hjólastíg frá Miðhúsabraut austan Skautahallar og suður fyrir Gömlu-Gróðrarstöðina. Gatan er um 250 metrar að lengd og stígurinn sem mun liggja meðfram Skautahöllinni er álíka langur.

Þessi nýi stígur er gerður í samstarfi við Vegagerðina, enda verður hann hluti af stofnstíg í gegnum allan bæinn frá Hörgársveit, niður Austursíðu, um Skarðshlíð, yfir Glerá, um miðbæinn, inn Hafnarstræti/Aðalstræti, framhjá Skautahöllinni og svo um Krókeyri að Eyjafjarðarsveit. 

Jarðvegsskiptum er lokið á um helmingi svæðisins og verður haldið áfram næsta vor. Að loknum jarðvegsskiptum verður malbikað, hellulagt og sett lýsing og plöntur. Stefnt er að því að ljúka verkinu áður en sumarvertíðin hefst á safnasvæðinu. 

Fyrr í desember hófst einnig stígagerð í Sandgerðisbót. Nýi stígurinn verður um 350 metra langur, norðan verbúðanna í framhaldi af stíg sem liggur með Glerá (að norðan) niður að árósi. Stefnt er að því að ljúka lagnavinnu og annarri jarðvinnu fyrir jól. Endanlegur frágangur er áætlaður næsta vor. Kostnaður við þetta verkefni nemur um 30 milljónum króna. 

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan