Út að leika með skóflu í hönd

Á Akureyri eru rúmlega 20 leikvellir staðsettir víða um bæinn. Þrátt fyrir að sólin geri sitt besta við að bræða snjóinn þá er víða erfitt að nota leiktæki, svo sem kastala og rólur, sökum snjóalaga. Unga kynslóðin mundi vel kunna að meta að geta notað leikvellina en til þess að það sé hægt þarf að moka frá leiktækjunum og það þarf að gerast upp á gamla mátann, það er með skóflu og handafli. Því miður er ekki hægt nota vélar til að moka leiksvæðin því flest hafa gúmmímottur og litla hluti sem erfitt er að moka frá án þess að eiga á hættu að skemma eitthvað. 

Með því að grípa skófluna með á leikvöllinn má segja að tvær flugur séu slegnar í einu höggi, hreyfing og skemmtun. Með þessu móti getum við í samvinnu en þó án nokkurrar hópamyndunar opnað leikvellina fyrir börnunum.

Það skiptir nefnilega miklu máli að halda áfram að leika sér og vera úti. Með þessu er þó ekki verið að hvetja til þess að margir safnist saman á leiksvæðunum í einu. Munum að við erum öll almannavarnir og það þarf alltaf að fara eftir tilmælum sóttvarnalæknis um fjölda- og fjarlægðartakmarkanir. Sjá nánar á Covid.is. 

Sendið okkur endilega myndir af mokstri og leik á akureyrarstofa@akureyri.is. 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan