Umhverfisþing ungmenna á Akureyri

Við upphaf þingsins var bæði sungið og dansað.
Við upphaf þingsins var bæði sungið og dansað.

Umhverfisþing ungmenna á norðurslóðum (Youth Eco-Forum) er haldið á Akureyri í þessari viku. Um 50 þátttakendur eru samankomnir til að ræða umhverfismál, helstu áskoranir og tækifæri með sérstaka áherslu á vatnsauðlindir. 

Þingið hefur verið haldið reglulega frá árinu 2001 á vegum Northern Forum sem eru samtök sveitarfélaga og svæða á norðurslóðum. Þetta er vettvangur ungs fólks til að ræða umhverfismál, deila reynslu og tengjast jafnöldrum frá öðrum löndum. 

Fræðsla um umhverfið og barátta gegn loftslagsbreytingum er ávallt í forgrunni á ungmennaþinginu sem er þó í hvert sinn haldið undir ákveðinni yfirskrift. Þemað í ár er „verndun vatnsauðlinda á norðurslóðum“. Þátttakendur eru rúmlega 50 ungmenni frá Rússlandi, Japan og Akureyri. 

Þingið var sett í Rósenborg gærmorgun. Ásthildur Sturludóttir ávarpaði hópinn og tók á móti góðum gjöfum frá gestunum sem síðan sýndu skemmtileg og metnaðarfull atriði. Búningagleði ríkti og var bæði sungið og dansað eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. 

Þátttakendum var svo skipt í hópa, þvert á lönd, sem vinna saman að ýmsum verkefnum. Í dag hafa erlendu gestirnir kynnt áherslur og ýmsar aðgerðir í umhverfismálum frá sínum svæðum. Dagurinn endar á afhendingu viðurkenninga og fræðsluferð um nágrennið fyrir alla þátttakendur. 

Hér er slóð á frétt um þingið á vef Northern Forum. 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan