Umfangsmiklar endurbætur á Lundarskóla

Akureyrarbær hefur ákveðið að ráðast í umfangsmeiri endurbætur og endurnýjun á húsnæði Lundarskóla en til stóð í fyrstu eftir að rakaskemmdir í húsnæðinu voru staðfestar fyrr á árinu. Byggingarnar eru komnar mjög til ára sinna og endurnýjun á húsnæðinu er á framkvæmdaáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2022. Þeim framkvæmdum verður flýtt.

Fyrst var greint frá rakaskemmdum í Lundarskóla í frétt á Akureyri.is 16. apríl sl. þegar úttekt verkfræðistofunnar Mannvits hafði farið fram. Þar var greint frá rakaskemmdum á afmörkuðum svæðum, fyrst og fremst í þeim álmum bygginganna sem eru að hluta niðurgrafnar. Sérfræðingar Mannvits töldu þó að skemmdirnar ættu ekki að hafa veruleg áhrif á kennslu og annað starf innan skólans ef gripið yrði strax til fullnægjandi ráðstafana. Viðgerðir hófust tafarlaust. Drenlögn umhverfis húsakynnin var endurnýjuð og ráðist í viðgerðir og fyrirbyggjandi aðgerðir innanhúss.

Lundarskóli var byggður í áföngum á árunum 1973-1999. Karl Frímannsson fræðslustjóri Akureyrarbæjar segir tímabært að ráðast í endurbætur á neðri hæðum kennsluálmanna tveggja, m.a. stækka glugga og setja upp nýtt loftskiptikerfi. „Því bendir allt til þess að finna þurfi kennslu þriggja til fjögurra árganga annan stað fyrir næsta vetur en ekki hefur verið ákveðið hvaða lausn verður valin í þeim efnum. Það er lítið hægt að fjalla um stöðuna á meðan við leitum lausna en um leið og ákvörðun um framhaldið hefur verið tekin, verður það kynnt ítarlega fyrir öllum sem málið varðar; foreldrum, nemendum og starfsfólki Lundarskóla," segir Karl Frímannsson.

„Við erum að skoða hvað skynsamlegast er að gera en að mínu mati kemur ekki til greina að við sættum okkur við að kennsla barnanna okkar fari fram í húsnæði sem er ekki í lagi," segir Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri. „Ráðast þarf í býsna umfangsmiklar aðgerðir sem kalla á flóknar lausnir. Þegar fyrir liggur hvað verður gert, þá munum við upplýsa alla hlutaðeigandi um niðurstöðuna. Það eru sameiginlegir hagsmunir allra bæjarbúa að hlúð sé vel að börnunum okkar og þeim búnar fyrsta flokks aðstæður í leik og starfi."

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan