Tímabókanir á netinu vegna félagslegrar liðveislu

Fólk sem þarf á félagslegri liðveislu að halda, aðstandendur og starfsfólk, geta nú bókað viðtalstíma á netinu til að fá nánari upplýsingar um það sem stendur til boða og fá viðeigandi aðstoð.

Félagsleg liðveisla er ætluð þeim sem búa við félagslega einangrun vegna fötlunar sinnar og þurfa persónulegan stuðning til að rjúfa hana. Bæði börn og fullorðnir sem eiga í félagslegum erfiðleikum vegna fötlunar eða langtíma veikinda geta átt kost á að njóta félagslegrar liðveislu. Starfsfólk félagslegrar liðveislu sinnir nú allt að 150 einstaklingum með afar fjölbreyttan bakgrunn og er þjónustan við hvern og einn einstaklingsmiðuð og sniðin að þjónustuþörf og óskum hvers og eins. Um 100 manns starfa við liðveisluna tiltekin tímafjölda á viku og hún hentar því mjög vel með námi eða sem hlutastarf.

Bókunarkerfið á heimasíðu Akureyrarbæjar býður hvort heldur sem er upp á viðtal á skrifstofu, símtal eða fjarfund. Ef enginn af þeim tímum sem í boði eru henta viðkomandi þá má senda tölvupóst á netföngin salkas@akureyri.is eða gudrunbe@akureyri.is og spyrjast fyrir um aðra tíma.

Tímabókanir og allar helstu upplýsingar um félagslega liðveislu er að finna hér.

Markmið félagslegrar liðveislu er að:

  • Aðstoða notendur við að öðlast sjálfstæði í félagslegum aðstæðum t.d. með þátttöku í menningarlegum viðburðum.
  • Hjálpa notendum að öðlast þau lífsgæði sem þykja eðlileg í samfélaginu með því að taka þátt í tómstundastarfi sem stuðlar að aukinni félagslegri þátttöku.
  • Stuðla að upplifunum sem styrkja persónulegan þroska, að notendur stígi út fyrir þægindaramma sinn og uppgötvi nýja styrkleika.
  • Styrkja og efla félagshæfni og sjálfsmynd með fjölbreyttu starfi. Hverjum og einum líði vel, hann taki þátt í athöfnum á sínum forsendum og njóti sín í samfélaginu.

Auk einstaklingsmiðaðrar þjónustu er boðið upp á alls kyns hópliðveislu, til að mynda þátttöku í starfi fótboltaliðsins FF Múrbrjótar; Fótbolti án fordóma og Listasmiðjunnar Limbó. Síðast en ekki síst er hægt að komast að á sumarnámskeiðunum fyrir félagslega einangruð börn í 1.-7.bekk.

Hér gefur að líta líflegt myndband um það sem m.a. felst í félagslegri liðveislu.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan