Til hamingju með daginn, kæra Akureyri!

Hljómsveitin 5 on the Floor í Lystigarðinum á Rökkurró. Ljósmynd: Andrés Rein Baldursson, 2023.
Hljómsveitin 5 on the Floor í Lystigarðinum á Rökkurró. Ljósmynd: Andrés Rein Baldursson, 2023.

Í dag er 161 ár frá því sveitarfélagið Akureyrarbær hlaut kaupstaðarréttindi. Því er fagnað ár hvert með Akureyrarvöku helgina sem næst afmælisdeginum og fór hátíðin að þessu sinni fram um liðna helgi, 25.-27. ágúst.

Fleiri en 70 viðburðir voru á dagskrá hátíðarinnar sem var sett í Lystigarðinum á föstudagskvöldið af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, en opinbera heimsókn hans og forsetafrúarinnar, Elízu Reed, bar einmitt upp á sömu helgi.

Allir helstu viðburðir hátíðarinnar voru vel sóttir enda lék veðrið við hvurn sinn fingur allan föstudaginn og vel fram eftir laugardeginum þegar fór að dropa um miðjan dag og loks hellirigna undir miðnættið sem hafði þó lítil áhrif á stemninguna.

Af nokkrum hápunktum hátíðarinnar má nefna 30 ára afmælisdagskrá Listasafnsins á Akureyri, Draugaslóð sem að þessu sinni var haldin á Harmarkotstúni, tónleika með GDRN og Magnúsi Jóhanni í Hofi, leiðsögn meðal huldufólks og álfa í Lystigarðinum, Sirkustóna Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, tónleika með Diddú og Jónasi Þóri í Hamraborg, skemmtisiglingar með Húna II og sögugöngu um Innbæinn.

Á stórtónleikum Akureyrarvöku á Ráðhústorgi komu fram Bríet, Á móti sól, Kári Egils og hljómsveit, og Hrefna Loga. Aðrir sem komu fram þetta kvöld á Ráðhústorgi voru leikhópurinn Umskiptingar, sönghópurinn Drottningar, dansarar frá Steps og þjóðdansarar frá Vefaranum. Kynnar kvöldsins voru Jónína Björt Gunnarsdóttir og Ívar Helgason.

Veg og vanda af undirbúningi og framkvæmd hátíðarinnar höfðu Hólmfríður Kristín Karlsdóttir og Almar Alfreðsson. Það var því í mörg horn að líta hjá þeim um helgina en Hólmfríður Kristín segist vera afar ánægð með það hvernig til tókst og þakkar þátttakendum og gestum fyrir að hjálpa til við að gera Akureyrarvöku ógleymanlega.

"Það er svo frábært að fólk skuli alltaf vera til í að vera með og skapa góða stemningu. Fyrst um sinn brosti sólin út að eyrum í einstakri veðurblíðu en síðan varð stemningin smám saman svo góð að veðurguðirnir táruðust og hreinlega hágrétu af gleði í lokin. Það var bara hressandi," segir Hólmfríður Kristín, verkefnastjóri Akureyrarvöku.

Til hamingju með afmælið, kæra Akureyri.

Smellið á myndirnar að neðan til að sjá stærri útgáfur og fletta á milli þeirra. Myndirnar tók Andrés Rein Baldursson.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan