Styðjandi samfélag fyrir fólk með heilabilun

Fyrstu heilavinir landsins samankomnir í Ketilhúsinu í morgun.
Fyrstu heilavinir landsins samankomnir í Ketilhúsinu í morgun.

Akureyrarbær er fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til að hefja vegferð í átt að samfélagi sem er vinveitt og meðvitað um þarfir einstaklinga með heilabilun og aðstandendur þeirra (e. dementia friendly community).

Öldrunarheimili Akureyrar og Alzheimersamtökin vinna saman að þróun og innleiðingu verkefnisins og undirrituðu haustið 2018 viljayfirlýsingu um frekara samstarf á þessu sviði. Þetta er mikilvægt verkefni, enda má ætla að fjögur til fimm þúsund manns á Íslandi séu með heilabilunarsjúkdóm og má reikna með verulegri fjölgun samhliða hækkandi aldri þjóðarinnar.

Markmiðið að auka þekkingu og draga úr fordómum

Í morgun var haldinn fundur í Ketilhúsinu á Akureyri sem markaði formlegt upphaf verkefnisins. Gera á einstaklingum með heilabilun kleift að lifa í styðjandi samfélagi sem sýnir þeim og aðstandendum þeirra skilning, virðingu og aðstoðar eftir þörfum. Markmið verkefnisins er að auka þekkingu á heilabilunarsjúkdómum, draga úr fordómum og hjálpa þeim sem eru með heilabilun að eiga innihaldsríkt líf.

Eitt af fyrstu og mikilvægustu skrefunum er að útbúa fræðsluefni og þjálfa leiðbeinendur sem munu í kjölfarið breiða út þekkingu um heilabilun í sinni heimabyggð. Allir sem vilja leggja sitt af mörkum geta óskað eftir því að gerast heilavinir. Þeir bera lítið hjarta í barminum og lýsa sig þannig reiðubúna til að bregðast við ef einstaklingur er í vanda og virðist ekki ráða við aðstæður.

Á fundinum í morgun fluttu ávörp Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri, Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra og Eliza Reid forsetafrú sem er verndari Alzheimersamtakanna. Lýstu þau öll yfir mikilli ánægju með verkefnið og lögðu áherslu á mikilvægi þess að hlúa að þeim sem minna mega sín.

Heilabilun ekki eðlilegur fylgifiskur öldrunar

Hulda Sveinsdóttir heilabilunarráðgjafi Öldrunarheimila Akureyrar flutti fróðlegt erindi um heilabilun, sem er í raun regnhlífarhugtak yfir um 200 mismunandi sjúkdóma. Suma þeirra er hægt að meðhöndla en ekki alla. Hulda benti á að þótt líkur á heilabilun aukist með hækkandi aldri þá séu slíkir sjúkdómar ekki eðilegur fylgifiskur öldrunar.

Sigurbjörg Hannesdóttir, fræðslustjóri Alzheimersamtakanna, sagði frá næstu skrefum í verkefninu og frumsýndi nýtt kynningarmyndband um heilavini og nýja vefsíðu - heilavinur.is - sem opnar í dag. Við lok fundarins útnefndi Vilborg Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Alzheimersamtakanna, Elizu Reid fyrsta heilavininn á Íslandi og bæjarstjórn Akureyrar sem fyrstu styðjandi bæjarstjórn á Íslandi. Þar á eftir var öllum fundargestum boðið að gerast heilavinir. 

Stefnan að safna 5.000 heilavinum

Á næstu vikum og mánuðum verður öflug fræðsla á Akureyri, til dæmis fyrir heilbrigðisstarfsfólk, sjúkraflutningafólk, lögreglu og starfsfólk í verslunum, sundlaugum og söfnum, um heilabilunarsjúkdóma og styðjandi samfélag. Síðar á árinu verður haldið námskeið fyrir leiðbeinendur á Norðurlandi og í kjölfarið er stefnan að fjölga styðjandi samfélögum. Markmiðið er að safna 5.000 heilavinum, eða um það bil jafn mörgum og talið er að séu með heilabilunarsjúkdóma á Íslandi.

Nokkrar myndir frá fundinum í morgun: 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan