Mikil fjölgun umsóknarforma í þjónustugátt

Mynd: María Helena Tryggvadóttir.
Mynd: María Helena Tryggvadóttir.

Notkun bæjarbúa á þjónustugátt sveitarfélagsins hér á heimasíðunni hefur farið mjög vaxandi síðustu ár. Alls bárust 8.329 umsóknir í gegnum gáttina í fyrra sem er svipaður fjöldi og árið áður. Rafrænar umsóknir sem bærinn hefur tekið á móti frá því að gáttin var tekin í notkun árið 2017 eru þar með orðnar rúmlega 26 þúsund. Þar af bárust hátt í 17.000 umsóknir síðustu tvö ár.

Ljóst er að þjónustugáttin hefur sparað bæði íbúum og starfsfólki Akureyrarbæjar mikinn tíma og dregið úr pappírsnotkun svo um munar. Ætla má að fjöldi rafrænna umsókna undanfarin fimm ár hefði vegið um 130 kg ef um umsóknir á pappír hefði verið að ræða.

Möguleikar til notkunar aukast sífellt með fjölgun umsóknarforma í gáttinni, enda hefur verið lögð mikil áhersla á að koma umsóknum um fjölbreytta þjónustu, styrki, leyfi og fleira á rafrænt form á einn stað.

Árið 2022 var 35 nýjum umsóknarformum bætt í þjónustugáttina og voru þau samtals 150 um síðustu áramót samanborið við 128 árið áður. Umsóknarformin tilheyra öllum sviðum bæjarins. Skipulags- og byggingarmál eru fyrirferðarmikil sem og skólamál, en umsóknir um félagslegt leiguhúsnæði, fjárhagsaðstoð, fastleigukort á bílastæðum, lýðheilsukort, matjurtagarð og leyfi til dýrahalds fara einnig í gegnum gáttina, svo aðeins örfá dæmi séu nefnd.

Þjónustugáttin einskorðast ekki við umsóknir því þar er einnig hægt að fylgjast með afgreiðslu erinda sinna, undirrita skjöl rafrænt, nálgast yfirlit reikninga og fleira.

Unnið er að nýrri og endurbættri útgáfu af þjónustugáttinni sem mun líta dagsins ljós síðar á árinu. Allt er þetta liður í stafrænni sókn sveitarfélagsins þar sem markmiðin eru meðal annars er að stytta leið íbúanna að þjónustunni og draga úr úrvinnslutíma beiðna.

Íbúar og viðsiptavinir sveitarfélagsins eru hvattir til að kynna sér möguleika þjónustugáttar Akureyrarbæjar.

Ef eitthvað er óljóst eða má betur fara er um að gera að senda starfsfólki Akureyrarbæjar ábendingu um það í gegnum þar til gerðan hnapp neðst á heimasíðu sveitarfélagsins.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan