Starfsfólk unnið vel úr krefjandi aðstæðum

Það hefur reynt verulega á starfsfólk velferðarþjónustu Akureyrarbæjar í Covid-19 faraldrinum. Með mikilli elju og þrautseigju hefur tekist að halda þjónustunni gangandi við krefjandi aðstæður.

„Það hefur verið nauðsynlegt þar sem velferðarsvið sinnir þjónustu sem ekki er hægt að loka. Má til dæmis nefna ráðgjöf í almennri félagþjónustu, barnavernd og ýmis konar þjónustu við fatlað fólk,“ segir Guðrún Sigurðardóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Akureyrarbæjar.

Búsetuþjónusta við fatlað fólk hefur reynst einna flóknust enda þarf að manna heimilin hvernig sem aðstæður eru í samfélaginu. „Með tilkomu sóttvarnahólfa á heimilum fyrir fatlað fólk þurfti að fækka starfsfólki á hverri vakt í töluvert langan tíma. Það fannst starfsfólki afar erfiður tími, ekki bara vegna þess að það þurfti að hlaupa hraðar heldur var eingöngu hægt að veita lágmarksþjónustu. Starfsfólk hefur passað sig sérstaklega vel bæði í einkalífi og starfi til þess að koma í veg fyrir að bera smit inn á heimilin því þar búa margir sem eru í viðkvæmum hópum. Svo hefur einnig þurft að útskýra Covid á einföldu máli fyrir notendum sem getur stundum verið krefjandi,“ segir Guðrún.

Erfiðleikum mætt með jákvæðni og lausnum

Guðrún segir að jafnvel þótt starfsfólk í heilbrigðis- og menntakerfinu hafi fengið verðskuldaða athygli fyrir vel unnin störf þá gleymist stundum hversu mikið álag hefur verið á starfsfólki velferðarþjónustunnar. „Starfsfólkið okkar hefur staðið sig gríðarlega vel í flóknum aðstæðum og mætt þessum erfiðleikum á lausnamiðaðan og jákvæðan hátt. Fólk hefur lagt mikið á sig og sem dæmi má nefna að í einhverjum tilvikum hefur starfsfólk flutt inn til notenda í búsetukjörnum til þess að verja notendur og bregðast við manneklu. Þetta er auðvitað langt umfram hefðbundnar starfsskyldur en ber vott um mikla ábyrgð og helgun í starfi,“ segir Guðrún.

„Það má segja að hljóðið í fólki sé almennt ágætt núna og öll vonum við að leiðin muni einungis liggja uppávið úr þessu. Á skrifstofum sviðsins í Glerárgötu höfum við verið með tvískipt sóttvarnahólf en því var hætt 31. janúar þegar breytingar á samkomutakmörkunum tóku gildi. Það má hins vegar áfram búast við miklum forföllum vegna Covid veikinda og getur orðið áskorun næstu vikur að manna þjónustuna t.d. heimili fatlaðs fólks.“

Stór skref í stafrænni þróun

Guðrún segir að þrátt fyrir allt þá hafi faraldurinn kennt okkur ýmislegt og nefnir í því samhengi stafræna þróun sem starfsfólk og notendur hafi þurft að tileinka sér hratt. „Ráðgjafarþjónustan hefur í auknum mæli verið veitt í gegnum netið og í þeim tilgangi var strax í fyrstu bylgju tekið í notkun öruggt tölvuforrit sem heitir Kara Connet. Auk þess hafa verið tekin stór skref í stafrænni þjónustu sem sést t.d. á því að rafrænt aðgengi notanda hefur aukist og mun minna er nú unnið með pappír. Þessi þróun er vonandi komi til að vera og heldur bara áfram. Þannig getum við bætt þjónustu við bæjarbúa á skilvirkan og hagkvæman hátt,“ segir Guðrún Sigurðardóttir.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan