Starf Minjasafnsins styrkt

Nonnahús á Akureyri. Mynd: Ragnar Hólm.
Nonnahús á Akureyri. Mynd: Ragnar Hólm.

Fyrir skemmstu var greint frá því að Minjasafnið á Akureyri og Nonnahús hljóti 15 milljónir króna úr árlegri úthlutun Safnaráðs en áður hafði komið fram hér á Akureyri.is að Listasafnið á Akureyri hlaut tæpar 11 milljónir króna frá Safnaráði.

Minjasafnið hlýtur Öndvegisstyrk að upphæð 9 milljónir króna til næstu þriggja ára vegna verkefnisins „Hvernig borðar maður fíl?" sem felst í auknum skráningum gripa og ljósmynda safnsins í gagnagrunninn sarpur.is. Safnið býr yfir meira en 3.000.000 ljósmynda og tæplega 36.000 gripum.

Einnig var 6 milljónum úthlutað til fjögurra ólíkra verkefna þar sem helmingur þeirrar upphæðar er ætlaður til uppsetningar á nýrri sýningu Jón Sveinsson undir yfirskriftinni „Ég heiti Jón en kallaðu mig Nonna". Önnur verkefni sem hlutu styrk voru safnfræðsla í Leikfangahúsinu á Akureyri sem Minjasafnið rekur í Friðbjarnarhúsi, útgáfu á bók með Íslandskortum Schulte en sýning á kortum þeim hefur staðið yfir í safninu undir heitinu „Land fyrir stafni" og samstarfsverkefni með Smámunasafninu í Eyjafjarðarsveit um skráningu á gripum þess.

Haraldur Þór Egilsson safnstjóri Minjasafnsins segir að þessi góða viðurkenning á starfi safnsins sé afar ánægjuleg. „Ég er ákaflega stoltur af þessum styrkjum sem eru viðurkenning á öflugu starfi starfsfólks Minjasafnsins á Akureyri. Öndvegisstyrkur til þriggja ára breytir miklu í skipulagningu starfsins hjá okkur og eykur aðgengi almennings að gagnasafni safnsins. Þá er ekki síður mikilvægt að geta gert nýja sýningu í Nonnahúsi."

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan