Snjómokstur í öllum hverfum

Vetrartíð á Akureyri. Ljósmynd: María H. Tryggvadóttir.
Vetrartíð á Akureyri. Ljósmynd: María H. Tryggvadóttir.

Unnið er að snjómokstri af fullum krafti. Samtals eru 33 tæki í notkun og er unnið í öllum hverfum bæjarins.

Snjó hefur kyngt niður síðustu daga samfara vindi og skafrenningi á köflum sem hefur gert snjómokstur krefjandi. Áherslan hefur verið lögð á fyrsta og annan forgang samkvæmt skipulagi vetrarþjónustu, það er að halda helstu leiðum, gangstígum, stofnbrautum og tengibrautum opnum. 

Snjómokstur í íbúðargötum er að hefjast af fullum krafti í dag. Allnokkrar götur eru ill- eða ófærar þar sem snjór hefur lítið þjappast, en vonast er til þess að eftir daginn í dag komist flestir um. Áfram er lögð mikil áhersla á að hreinsa gangstíga og halda þeim í góðu standi. Búast má við að það taki nokkra daga að hreinsa bæinn að fullu.

Eins og margoft hefur komið fram og flestir íbúar á Akureyri þekkja þá tekur allt aðeins lengri tíma á dögum sem þessum og þá gildir að sýna þolinmæði og tillitssemi. Allir eru að gera sitt besta.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan