Skýrsla um uppbyggingu íþróttamannvirkja

Nú liggur fyrir skýrsla starfshóps um nýframkvæmdir íþróttamannvirkja Akureyrarbæjar. Þar er að finna tillögur að forgangsröðun uppbyggingar næstu 15 árin.

Samkvæmt tillögu frístundaráðs var skipaður þverpólitískur starfshópur sem tók til starfa í mars síðastliðnum. Hlutverk hópsins var að greina gróflega stofn- og rekstrarkostnað við helstu framtíðar íþróttamannvirki, setja upp sviðsmyndir um röð uppbyggingar, samspil verkefna og meta mögulegan framkvæmdahraða út frá fjárhagslegu svigrúmi bæjarins og fjárþörf verkefna.

Í upphafi var kallað eftir upplýsingum frá aðildarfélögum ÍBA, eins konar óskalista, um hvaða aðstöðu hvert félag þyrfti á næstu 5-15 árum, að teknu tilliti til staðsetningar og samlegðaráhrifa af nýtingu mannvirkja.

Í vinnu sinni horfði starfshópurinn til atriða sem skipta máli fyrir bæjarfélagið í heild. Einkum var litið til fjölbreytni og gæða núverandi íþróttamannvirkja, nýtingu þeirra, fjölda iðkenda, skólastarfs, ferðaþjónustu og almennings. Niðurstaða hópsins er forgangslisti með 11 verkefnum og er heildarkostnaður við þau gróflega metinn 6.750 milljónir króna.

Við hvetjum bæjarbúa til að kynna sér skýrsluna, sem er aðgengileg hér.

Skýrslan var í vikunni til umfjöllunar í frístundaráði sem vísaði henni til bæjarráðs. Haldinn verður kynningarfundur um skýrsluna með íþróttahreyfingunni á mánudaginn. 

Eftirtaldir áttu sæti í starfshópnum: Hildur Betty Kristjánsdóttir f.h. L-lista, Andri Teitsson f.h. L-lista, Tryggvi Már Ingvarsson f.h. Framsóknarflokksins, Arnar Þór Jóhannesson f.h. Samfylkingarinnar, Berglind Ósk Guðmundsdóttir f.h. Sjálfstæðisflokksins, Hannes Karlsson f.h. Miðflokksins og Ásrún Ýr Gestsdóttir f.h. Vinstri grænna. Í september 2019 bættist Anna Hildur Guðmundsdóttir, L-lista, í vinnuhópinn sem formaður frístundaráðs. Starfsmaður hópsins var Ellert Örn Erlingsson, deildarstjóri íþróttamála hjá Akureyrarbæ.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan