Skýrsla um fuglalíf Krossanesborga sumarið 2018

Brandugla á hreiðri í Krossanesborgum - myndina tók Eyþór Ingi Jónsson
Brandugla á hreiðri í Krossanesborgum - myndina tók Eyþór Ingi Jónsson


Í Krossanesborgum fer á fimm ára fresti fram talning á fuglum og nú er komin út fimmta skýrslan um fuglalíf í fólkvanginum. Krossanesborgir voru friðlýstar sem fólkvangur árið 2005 í anda Staðardagskrár 21 en svæðið er mikilvægur varpstaður fugla í Eyjafirði. Í sumar fundust 25 tegundir varpfugla i Krossanesborgum og er það tveimur tegundum meira en í síðustu talningu vorið 2013. Alls voru pörin 785 sem er fjölgun um 172 pör frá síðustu talningu.

Meðal þess sem fram kemur í skýrslunni er að þrjár nýjar tegundir hafa bæst við í varpfuglafánu svæðisins: flórgoði, brandugla og auðnutittlingur, en sjö tegundir sem áður hafa orpið á svæðinu vantar. Þetta eru grafönd, sandlóa, lóuþræll, kjói, kría, hrafn og snjótittlingur. Grágæs og skúfönd hefur fjölgað og óðinshanar hafa aldrei verið fleiri, en rauðhöfðaönd hefur fækkað verulega milli talninga.

Skýrsluna rituðu Sverrir Thorstensen og Þorsteinn Þorsteinsson að beiðni umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrar. Hún er afar fróðleg fyrir áhugafólk um fuglalíf og hana prýða fallegar myndir eftir Eyþór Inga Jónsson.

Fuglalíf Krossanesborga sumarið 2018 (skýrsla í pdf-formi)

Hægt er að finna fleiri skýrslur um fuglalíf í bæjarlandinu undir útgefið efni/umhverfismál-skýrslur.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan