Skólastarf í grunnskólum að hefjast

Grunnskólar Akureyrarbæjar voru settir í gær og er skólastarf að hefjast samkvæmt stundaskrá í vikunni.

Alls verða hátt í 2.700 nemendur í grunnskólum sveitarfélagsins í vetur. Þar af eru 210 börn að byrja í 1. bekk sem verður fámennasti árgangurinn á skólaárinu. Heilt yfir fækkar nemendum í grunnskólum um 30 á milli skólaára.

Fjöldi barna eftir skólum:

Brekkuskóli 503
Oddeyrarskóli 172
Glerárskóli 341
Lundarskóli 456
Síðuskóli 353
Giljaskóli 413
Naustaskóli 393
Hríseyjarskóli 14
Hlíðarskóli 17 (miðað við að þau verði 20)


Eins og sjá má verður ekki skólahald í Grímsey í vetur, en nemendafjöldi í Hrísey er svipaður og á liðnu skólaári.

Staðan í skólamálum er heilt yfir góð og er útlit fyrir skemmtilegt, þroskandi og lærdómsríkt skólaár. Mönnun er sem fyrr mjög góð og er yfirgnæfandi meirihluti starfsfólks í grunnskólum Akureyrarbæjar fagmenntaður. Hlutfall fagmenntaðra kennara er áætlað um 98%.

Starfsfólk og stjórnendur skólanna leita sífellt leiða til að þróa skólastarfið og efla samskipti við foreldra með hjálp stafrænna lausna. Af helstu nýjungum sem snúa að foreldrum grunnskólabarna nú í haust má nefna innleiðingu á kerfinu Völu sem er notað til að halda utan um rafrænar skráningar í frístund og mat. Vala verður einnig notuð til að skrá börn í 1.-4. bekk í frístundaakstur sem hefst þegar líður á haustið. 

Covid-19 hefur, eðli málsins samkvæmt, haft áhrif á undirbúning skólastarfs. Aðstæður eru mismunandi í grunnskólunum en sameiginlegt markmið allra er að halda óskertu skólastarfi um leið og nauðsynlegra sóttvarna er gætt. 

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan