Skógardagur Norðurlands á laugardag

Skógardagur Norðurlands verður haldinn á laugardag frá kl. 13-16 í Kjarnaskógi. Aðalatriðið á þessum degi er að nýja útivistar- og grillsvæðið á og við Birkivöll verður formlega tekið í notkun. Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri ávarpar afmælisbarnið og skrifað verður undir samning um nýjan Yndisgarð sem meiningin er að koma upp í skóginum með úrvali skrautrunnategunda.

Fræðsla verður um Yndisgarðinn í „fundarsal“ sem útbúinn hefur verið undir greinum stórra grenitrjáa í skóginum. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur sýnir ýmsar sveppategundir sem lifa í skóginum. Ólafur Oddsson fræðslufulltrúi Skógræktarinnar kennir réttu handbrögðin við tálgun og fólk fær að prófa að tálga töfrasprota og fleira. Skátar kynna hátíð sem fer fram á Hömrum um kvöldið og svo verður auðvitað ketilkaffi, lummur, popp, svaladrykkir, sveppasúpa, ratleikur, fræðsluganga um Birkivöll og nágrenni ásamt fleiru. 

Loks er vert að geta þess að nú hefur verið útbúinn létthringur í Kjarnaskógi sem fær verður öllu fólki, háum sem lágum, ungum sem gömlum, gangandi eða í hjólastól. Hringur þessi liggur m.a. um hinn nýja Birkivöll.

Að Skógardegi Norðurlands standa Skógræktarfélag Eyfirðinga, Skógræktin, Félag skógarbænda á Norðurlandi, Sólskógar og Akureyrarbær.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan