Skiptir máli að undirbúa starfslok

Frá námskeiðinu í vikunni.
Frá námskeiðinu í vikunni.

Það er mörgum stórt skref og jafnvel krefjandi að hætta að vinna sökum aldurs, en miklu getur munað að undirbúa sig vel. 30 starfsmenn Akureyrarbæjar sóttu í vikunni námskeið sem er ætlað að hjálpa fólki að undirbúa starfslok, laga sig að breyttu lífsmynstri og stuðla að innihaldsríku lífi að starfi loknu.

Akureyrarbær hefur annað hvert ár haldið starfslokanámskeið fyrir starfsfólk eldra en 60 ára í samstarfi við nokkrar stofnanir. 55 manns sóttu námskeiðið sem var haldið í tveimur lotum í vikunni. Langflestir þátttakendur voru frá Akureyrarbæ, en þarna var líka starfsfólk Sjúkrahússins á Akureyri, Norðurorku, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Grýtubakkahrepps. 

Á námskeiðinu voru flutt fjölbreytt og fræðandi erindi. Meðal annars var fjallað um ellilífeyri, réttindi hjá lífeyrissjóðum og stéttarfélögum að lokinni starfsævi. Öldrunarlæknir fjallaði um hvernig megi eldast vel, sjúkraþjálfari fór yfir mikilvægi hreyfingar og þá var einnig fjallað um andlega heilsu. Einnig var kynning á fjölbreyttu félags- og tómstundastarfi sem er í boði fyrir eldri borgara á Akureyri.

Samkvæmt Eyrúnu Kristínu Gunnarsdóttur sálfræðingi, sem hélt erindi á námskeiðinu, sýna rannsóknir að 70-80% fólks upplifir minniháttar breytingar á lífsánægju í kjölfar starfsloka. 10-25% upplifa neikvæðar breytingar sem lagast í flestum tilfellum og 5-15% upplifa jákvæðar breytingar. Þeir þættir sem hafa mest áhrif á jákvæða aðlögun eru heilsa og hreyfing, nægar tekjur, virkni og félagslegur stuðningur. Heilt yfir eiga flestir tiltölulega auðvelt með að aðlagast því að fara á eftirlaun.

Námskeiðið var þátttakendum að kostnaðarlausu. Það þótti takast mjög vel, líkt og síðustu ár, enda er afar jákvæður og öflugur hópur sem mætir í hvert sinn.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan