Skemmtilegir minni viðburðir um helgina

Þrátt fyrir að fjölskylduhátíðinni Einni með öllu hafi verið aflýst sem slíkri þá verða nokkrir smærri viðburðir á dagskrá með stífum sóttvarnareglum og fjöldatakmörkunum.

Vinir Akureyrar hafa sent frá sér eftirfarandi tilkynningu um viðburði helgarinnar:

Þrátt fyrir að stórviðburðum á fjölskylduhátíðinni Ein með Öllu hafi verið aflýst þá munu margir skemmtilegir minni viðburðir vera á Akureyri um Verslunarmannahelgina og rúmast þeir innan þeirra sóttvarnarreglna sem nú eru í gildi.

Nóg verður um útivist og hreyfingu fyrir alla aldurshópa en helst má þar nefna fjallahlaupið Súlur Vertical og Hjólreiðahátíð Greifans.
Kirkjutröppuhlaupið við Akureyrarkirkju verður á sínum stað og eru allir krakkar velkomnir og mun Hvolpasveitin mæta og hitta krakkana og allir fá gefins glaðning frá Ölgerðinni,

AquaZumba með Þórunni Kristínu verður í sundlaug Hrafnagils og paramót á vegum líkamsræktarstöðva Norður AK verður haldið frá föstudegi til sunnudags.

Rafhjólaklúbbur Akureyrar verður með Rafhjólaleikana 2021 og AKUREYRI.BIKE götuhjólaáskorunin verður haldin eins og undanfarin ár.

Á flötinni fyrir neðan leikhúsið verður komið upp sannkallaðri fjölskylduflöt þar sem Sprell tívolí mun vera með opið til 23:30 alla dagana, Kastalar ehf mæta með Nerfstríð, og hinir sívinsælu Vatnaboltar verða á staðnum . Kjörið að taka með sér teppi og leyfa börnunum að njóta sín í góða veðrinu.

Handverks- og hönnunarmessu verður slegið upp í húsi Rauða krossins og hvetjum við fólk til að kíkja við og skoða skemmtilega hönnun og handverk.
Húllaverksmiðja með Húlludúllunni verður fyrir krakkana í Kjarnaskógi og markaðsstemning verður á Ráðhústorginu þar margt skemmtilegt verður til sölu.

Þá er ekki allt upp talið því Sambíóin ætla að vera með Verslótilboð á nýju Space Jam myndina og söfn bæjarins verða opin.
Að sjálfsögðu verður opið í einum fallegasta skógi landsins, Kjarnaskógi. Hvað er betra en að njóta með fjölskyldu og vinum í góða veðrinu, smyrja nesti og nýta þessa fallegu náttúruaðstöðu innan bæjarmarka á Akureyri.

Allar nánari upplýsingar er að finna inn á heimasíðu Einnar með öllu. Dagskráin er birt með fyrirvara um breytingar vegna hertra samkomutakmarkana og stöðu samfélagsins hverju sinni.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan