Sigurhæðir til leigu

Akureyrarstofa auglýsir til leigu Sigurhæðir á Akureyri. Húsið lét þjóðskáldið, séra Matthías Jochumsson, reisa árið 1903 en það er einlyft timburhús með risi. Húsið stendur á steinhlöðnum kjallara og miðjukvistur með risþaki eru á vestur- og austurhlið. Viðbyggingar eru við þrjár húshliðar, anddyri með valmaþaki við norðurstafn, inngönguskúr með skúrþaki við bakhlið og forstofa með valmaþaki við suðurstafn.

Húsið er friðað í B-flokki og verður starfsemi í húsinu að samræmast þeim kvöðum sem því fylgja og vera þess eðlis að ekki mæði of mikið á því. Leigjendur hafa ekki heimild til að framleigja húsið.

Áhugasamir skili inn greinargerð þar sem m.a. kemur fram:

  • Hvaða starfsemi fyrirhuguð er í húsinu
  • Menningarlegt vægi starfseminnar og tenging við sögu hússins
  • Hvernig fjármögnun veður háttað
  • Tilboð í leigufjárhæð

Við yfirferð á framlögðum hugmyndum og tilboðum mun fyrirhuguð starfsemi og menningarlegt vægi gilda 50% af mati og tilboð um leigufjárhæð 50%. Stjórn Akureyrarstofu mun annast matið.

Stærð og árlegur kostnaður:

  • Húsið er leigt til 4 ára með möguleika á framlengingu samnings í önnur 4 ár.
  • Heildargólfflötur er um 237 m2.
  • Reiknuð árleg innri húsaleiga af húsinu er um 2,5 m.kr. á ári.
  • Kostnaður við rafmagn og hita er u.þ.b. 250 þús. á ári.

Nálgast má teikningar á þessum vef: http://map.is/akureyri/?teikningar#

Nánari upplýsingar veitir Þórgnýr Dýrfjörð deildarstjóri Akureyrarstofu; netfang: thorgnyr@akureyri.is.

Frestur til að skila inn hugmyndum og tilboðum er til 28. nóvember 2019.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan