Sameining Akureyrar og Hríseyjar samþykkt

Meirihluti íbúa Akureyrar og Hríseyjar samþykkti sameiningu sveitarfélaganna tveggja en kosið var samhliða forsetakosningum á laugardag. Hríseyingar samþykktu sameininguna nær einróma, eða með 93,5% atkvæða. Af 124 sem greiddu atkvæði sögðu 116 já og 8 nei eða 6,5%. Alls voru 133 á kjörskrá í Hrísey. Meirihluti kjósenda á Akureyri var einnig hlynntur sameiningu en um 75% þeirra sem kusu í sameiningarkosningunum sögðu já. Um 11.500 manns voru á kjörskrá á Akureyri.

Sameiningin tekur gildi 1. ágúst næstkomandi og mun bæjarstjórn Akureyrar fara með stjórn sameinaðs sveitarfélags fram að almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2006. Samráðsnefnd verður starfandi fram að þeim tíma, sem koma mun sjónarmiðum Hríseyinga á framfæri við fagnefndir sameinaða sveitarfélagsins. Fagnefndir Akureyrar munu fara með stjórn málaflokka fram að næstu kosningum, en þá verða 11 fulltrúar kosnir í stjórn hins nýja sameinaða sveitarfélags.

Frétt úr Morgunblaðinu 28. júní 2004.



Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan