Rekstur í jafnvægi

Mynd: Auðunn Níelsson.
Mynd: Auðunn Níelsson.

Ársreikningar Akureyrarbæjar fyrir árið 2018 voru lagðir fram í bæjarráði í dag. Rekstur samstæðunnar gekk vel og var í samræmi við áætlun á árinu 2018 þrátt fyrir háa gjaldfærslu vegna breytinga á lífeyrisskuldbindingum og var Akureyrarbær rekinn með 377 millj. kr. afgangi sem var nokkru betri árangur en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Sjóðstreymi ársins var líka betra en áætlun gerði ráð fyrir.

Samstæða Akureyrarbæjar var rekin með 377 millj. kr. afgangi þegar tekið hefur verið tillit til 1.024 millj. kr. gjaldfærslu vegna lífeyrisskuldbindinga á árinu. Gjaldfærslan setur verulegan svip á niðurstöður ársreikningsins. Stafaði hún m.a. af hækkun á vísitölu lífeyrisskuldbindinga opinberra starfsmanna umfram ávöxtun eigna Lífeyrissjóðsstarfsmanna Akureyrarbæjar.

Rekstur samstæðu Akureyrarbæjar var viðunandi og rekstrarniðurstaða ársins í meginatriðum eins og fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar fyrir fjármagnsliði og tekjuskatt var jákvæð um 1.619 millj. kr. en áætlun hafði gert ráð fyrir 1.564 millj. kr. rekstrarafgangi. Heildarniðurstaðan var þó ívið betri en áætlanir gerðu ráð fyrir eða 377 millj. kr. afgangur en áætlun gerði ráð fyrir 230 millj. kr. jákvæðri niðurstöðu.

Samkvæmt yfirliti um sjóðstreymi nam veltufé frá rekstri 3.219 millj. kr. sem var ríflega 800 millj. kr. hærra en áætlun hafði gert ráð fyrir og var það sambærileg fjárhæð og árið áður. Handbært fé frá rekstri nam 1.140 millj. kr. Fjárfestingahreyfingar námu samtals nettó 4.032 millj. kr. en fjármögnunarhreyfingar námu samtals nettó 2.559 millj. kr. Afborgun langtímalána nam 2.781 millj. kr. en ný langtímalán voru 5.397 millj. kr. Lækkun á handbæru fé á árinu nam 333 millj. kr. og nam handbært fé samstæðunnar í árslok 2.819 millj. kr. Veltufé frá rekstri árið 2018 í hlutfalli við tekjur nam 12,6% í samstæðunni og 8,5% í A-hluta. Árinu áður voru hlutföllin 13,8% í samstæðunni og 10,7% í A-hluta.

Heildarlaunagreiðslur án launatengdra gjalda og hækkunar lífeyrisskuldbindinga hjá samstæðunni voru 11.299 millj. kr. Fjöldi stöðugilda var að meðaltali 1.563 sem er fjölgun um 36 stöðugildi frá árinu áður. Laun og launatengd gjöld samstæðunnar í hlutfalli við rekstrartekjur þess voru 59,0%. Annar rekstrarkostnaður var 28,8% af rekstrartekjum. Skatttekjur sveitarfélagsins voru 791 þús. kr. á hvern íbúa en tekjur samtals 1.353 þús. kr. á hvern íbúa. Árið 2017 voru skatttekjurnar 747 þús. kr. á hvern íbúa og heildartekjurnar 1.273 þús. kr. á hvern íbúa.

Niðurstaða rekstrar A-hluta var neikvæð um 384 millj. kr. en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu um 341 millj. kr. Gjaldfærsla lífeyrisskuldbindinga nam 978 millj. kr. í A-hluta sem var 578 millj. kr. umfram áætlun.

Samkvæmt efnahagsreikningi voru eignir sveitarfélagsins í árslok 2018 bókfærðar á 54.232 millj. kr. en þar af voru veltufjármunir 5.603 millj. kr. Skuldir sveitarfélagsins með lífeyrisskuldbindingum námu samkvæmt efnahagsreikningi 29.437 millj. kr. en þar af voru skammtímaskuldir 4.052 millj. kr.

Fjárhagur Akureyrarbæjar er traustur og nam skuldaviðmið samstæðunnar í árslok 75% samkvæmt reglum Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga en það var 95% árið áður. Ástæður lækkunar skuldaviðmiðsins má rekja til breyttra reglna við útreikning þess. Með sambærilegum útreikningi árið áður var skuldahlutfallið 70%. Skuldaviðmið í A-hluta var 59% í árslok en var 60% árið áður miðað við núgildandi reglur um útreikninginn.

Veltufjárhlutfallið var 1,38 í árslok 2018 en var 0,87 árið áður. Bókfært eigið fé nam 24.796 millj. kr. í árslok en var 20.181 millj. kr. í árslok árið áður. Eiginfjárhlutfall var 46% af heildarfjármagni en var 44% árið áður.

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum í sveitarstjórn og verður hann til umfjöllunar í bæjarstjórn Akureyrar 2. apríl og 16. aprí nk.

Ársreikningurinn er settur fram samkvæmt lögum um reikningsskil sveitarfélaga. Starfseminni er skipt upp í tvo hluta, A-hluta annars vegar og B-hluta hins vegar. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Til B–hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða að meirihluta eru í eigu sveitarfélagsins en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum.

Ársreikningur 2018

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan