Rekstur í jafnvægi

Árshlutareikningur fyrir A- og B-hluta Akureyrarbæjar fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2017 var lagður fram í bæjarráði í dag. Árshlutauppgjörið er óendurskoðað. Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta á fyrri hluta ársins var jákvæð um 96,9 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að rekstrarafgangur yrði 15,8 milljónir króna á tímabilinu. Afkoma samstæðunnar er því nokkru betri en áætlun gerði ráð fyrir á fyrri hluta ársins.

"Reksturinn er í góðu jafnvægi og jákvætt að sjá að niðurstaðan er betri en áætlanir gerðu ráð fyrir og afkoma í A-hlutanum nokkuð betri en á fyrri hluta árs 2016,“ segir Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður bæjarráðs.

"Við höfum lagt mikla áherslu á kjörtímabilinu að ná jafnvægi í rekstri A-hluta án þess að það bitni á þeirri þjónustu sem sveitarfélagið er að veita og ánægjulegt að sjá að það er að nást. Ég hefði að sjálfsögðu viljað sjá tekjur aukast meira en útsvarstekjur okkar eru að hækka nokkuð minna en landsmeðaltal og þá sérstaklega hjá þeim sveitarfélögum sem við berum okkur gjarnan saman við á höfðuborgarsvæðinu. Engu að síður er ég sáttur, afkoman er að batna, veltufé frá rekstri er að aukast, skuldahlutfall að lækka og mér sýnist á öllu að okkur ætli að takast það sem að var stefnt í upphafi kjörtímabils, að skila af okkur betra búi,“ segir Guðmundur Baldvin.

Rekstrarniðurstaða A-hluta á fyrri hluta ársins var jákvæð um 4,9 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að rekstarhalli yrði 188 milljónir króna á tímabilinu. Afkoma A-hluta er því nokkru betri en áætlun gerði ráð fyrir. Tekjur samstæðunnar námu samtals 11.757 milljónum króna en áætlun gerði ráð fyrir að tekjur yrðu 11.625 milljónir króna. Skatttekjur voru 5.302 milljónir króna sem er 125 milljónum króna umfram áætlun eða 2,36%. Tekjur frá Jöfnunarsjóði námu 1.476 milljónum króna sem er 47 milljónum króna umfram  áætlun. Aðrar tekjur voru 4.978 milljónir króna sem er 41 milljónum króna undir áætlun.

Rekstrargjöld samstæðunnar voru samtals 11.178 milljónir króna sem er 180 milljónum króna umfram áætlun eða 1,60%. Laun og launatengd gjöld námu 6.606 milljónum króna en áætlun gerði ráð fyrir 6.510 milljónum króna. Annar rekstrarkostnaður var 3.606 milljónir króna sem er 11 milljónum króna undir áætlun. Fjármagnsgjöld, nettó, námu 435 milljónum króna sem er 128 m.kr. undir áætlun.

Lífeyrisskuldbindingar eru færðar miðað við greiddar lífeyrisskuldbindingar á tímabilinu ásamt því að skuldbindingin 31.12.2016 er uppreiknuð miðað við breytingu á vísitölu lífeyrisskuldbindinga opinberra starfsmanna janúar til júní 2017.  Með breytingum á lögum um A-deild LSR og samþykktum samsvarandi deildar Brúar lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga voru lífeyrisréttindi jöfnuð milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins. Í því fólst m.a. að sveitarfélögum ber að gera upp uppsafnaðan halla og framtíðarhalla A-deildar Brúar með einskiptisframlagi.  Um talsverða fjárhæð getur verið  að ræða sem verður gjaldfærð á árinu í tengslum við þetta uppgjör.  Einnig er verið að semja um yfirtöku ríkisins á  öðrum lífeyrisskuldbindingum m.a. vegna Öldrunarheimila Akureyrarbæjar sem koma til lækkunnar á skuldbindingum bæjarins. Ekki hefur verið tekið tillit til þessara fyrirhugaðra uppgjöra á lífeyrisskuldbindingum í árshlutauppgjörinu vegna óvissu um fjárhæðir.

Samkvæmt sjóðsstreymi samstæðunnar nam veltufé frá rekstri 1.091 milljónum króna eða 9,28% af tekjum. Fjárfestingahreyfingar námu 803 milljónum króna og fjármögnunarhreyfingar 226 milljónum króna. Afborganir lána námu 363 milljónum króna. Engin ný langtímalán voru tekin á tímabilinu. Handbært fé var 3.398 milljónir króna í lok júní.

Litlar breytingar urðu á efnahag. Fastafjármunir námu 37.341 milljónum króna og veltufjármunir 5.731 milljónum  króna. Eigið fé var 18.672 milljónir króna en var 18.578 milljónir króna um síðustu áramót. Langtímaskuldir og skuldbindingar námu 20.498 milljónum króna en námu 20.512 milljónum króna í lok síðasta árs. Skammtímaskuldir voru 3.902 milljónir króna en voru 3.398 milljónir króna um sl. áramót.  

Veltufjárhlutfall var 1,47 á móti 1,58 í lok síðasta árs. Eiginfjárhlutfall var 43,3% í lok júní.

Árshlutareikningur Akureyrarbæjar 1. janúar - 30. júní 2017.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan