Ráðgjafar með fasta viðveru í Víðilundi og Bugðusíðu

Félagsmiðstöðin í Víðilundi.
Félagsmiðstöðin í Víðilundi.

Þeirri nýbreytni hefur verið komið á að nú hafa ráðgjafar í málefnum aldraðra fasta viðverðu í félagsmiðstöðvunum í Víðilundi og Bugðusíðu. Með því er komið til móts við þarfir eldri borga fyrir miðlæga upplýsingamiðlun og ráðgjöf þar sem þjónustukeðjan birtist sem ein heild.

Þessi aukna þjónusta er veitt í kjölfar fundar sem fulltrúar búsetu- og fjölskyldusviðs, Öldrunarheimila Akureyrar (ÖA) og Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) héldu 10. október 2016. Þar var fjallað um niðurstöðu hópavinnu sem unnin var í tengslum við stefnumótun í velferðamálum hjá Akureyrarbæ vorið 2016. Sú vinna leiddi meðal annars í ljós þörf á bættu aðgengi að þjónustu, aukinni samþættingu og að efla þyrfti upplýsingagjöf og ráðgjöf til eldri borgara. Á fundinum var ákveðið að skipa í þverfaglegan vinnuhóp sem fengi það verkefni að kortleggja stöðuna og leggja línurnar fyrir framhaldið.

Ein af niðurstöðum vinnuhópsins var að mikilvægt væri að bjóða upp á miðlæga upplýsingamiðlun og ráðgjöf þar sem þjónustukeðjan birtist sem ein heild. Er verið að stíga skref í áttina að því með viðveru ráðgjafa í félagsmiðstöðvum eldri borgara. Það eru starfsmenn búsetu- og fjölskyldusviðs bæjarins, HSN, SAk og ÖA sem skiptast á að veita upplýsingar og ráðgjöf um ýmis úrræði og þjónustu fyrir eldra fólk á Akureyri. Verða þeir í  félagsmiðstöðvunum í  Bugðusíðu aðra hverja viku á miðvikudögum og í  Víðilundi aðra hverja viku á föstudögum. Þetta er liður í að bæta upplýsingagjöf til eldra fólks og aðstandenda. Ekki þarf að panta tíma.

Hér að neðan má sjá yfirlit yfir þá daga sem ráðgjafarnir verða til viðtals:

Bugðusíða

Miðvikudagar kl . 16–18

27. september

10. október

25. október

8. nóvember

22. nóvember

6. desember                     

Víðilundur

Föstudagar kl. 10–12

6. október 

20. október

3. nóvember

17. nóvember

1. desember

15. desember

 

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan