Öll þjónusta og starfsemi Akureyrarbæjar úr skorðum í fyrramálið vegna óveðurs

Mynd: María Helena Tryggvadóttir.
Mynd: María Helena Tryggvadóttir.

Öllu skólahaldi í leik- og grunnskólum Akureyrarbæjar, sem og Tónlistarskólanum á Akureyri, hefur verið aflýst á morgun. Gert er ráð fyrir afleitu veðri í Eyjafirði með mikilli vindhæð og ofankomu. Búist er við að ófært verði með öllu um götur bæjarins og er fólk hvatt til að vera sem minnst á ferli. Tilmæli um niðurfellingu skólahalds eru komin frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Spár gera ráð fyrir að versta veðrið verði snemma í fyrramálið eða frá um kl. 7 og fram undir hádegið. Starfsfólk Akureyrarbæjar er hvatt til að vinna heima eftir því sem kostur er og verða skrifstofur sveitarfélagsins í Ráðhúsinu og Glerárgötu 26 lokaðar a.m.k. til hádegis. Símsvörun verður lokuð á sama tíma en hægt að ná samband með því að senda tölvupóst á akureyri@akureyri.is. Einnig er fólki bent á að nota netspjallið á heimasíðu Akureyrarbæjar og ábendingarhnappinn neðst á síðunni.

Á vinnustöðum Akureyrarbæjar þar sem gengnar eru vaktir, má búast við að fólk á næturvöktum verði beðið um að sinna störfum sínum í þjónustu við viðkvæma hópa þar til veðrinu slotar. Líkt og áður munu björgunarsveitir á svæðinu gera það sem í þeirra valdi stendur til að aðstoða þennan starfshóp við að komast til og frá vinnu. Reynt verður að halda forgangsleiðum opnum frá kl. 5-7 í fyrramálið ef það mætti verða til að fólk sem þarf að mæta til sinna starfa komist frekar leiðar sinnar áður en veðrið versnar. Þegar veður versnar verður öllum mokstri gatna hætt þar til um hægist.

Starfsemi í Plastiðjunni Bjargi-Iðjulundi og Hæfingarstöðinni í Skógarlundi fellur niður á morgun.

Strætisvagnar Akureyrar munu ekki ganga í fyrramálið og snjómokstri verður ekki sinnt á meðan versta veðrið gengur yfir. Akstur strætó hefst aftur þegar hægt verður að ryðja helstu leiðir. Sorphirðu verður ekki hægt að sinna í fyrramálið og ferliþjónusta stöðvast um sinn.

Ýmsar aðrar stofnanir bæjarins verða lokaðar vegna veðurs, svo sem Sundlaug Akureyrar.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan