Ný brú yfir Eyjafjarðará vígð í dag

Brú yfir vestari kvísl Eyjafjarðarár verður vígð við hátíðlega athöfn í dag, miðvikudag, kl. 18. Á sama tíma verður tilkynnt um val dómnefndar á heiti brúarinnar að lokinni nafnasamkeppni.

Dagskráin hefst með hópreið hestamannafélagsins Léttins að brúarstæðinu vestan megin. Karlakór Eyjafjarðar syngur og flutt verða nokkur ávörp áður en klippt verður á borða og brúin formlega opnuð. Þá verður gengið, hjólað, hlaupið og riðið yfir brúna og veitingar framreiddar á flötinni austan megin.

Viðburðurinn er öllum opinn, enda er þetta brúin okkar allra og mikil samgöngubót fyrir útivistarfólk.

Mikilvægt er hins vegar að draga úr umferð ökutækja í kringum svæðið. Fólk er beðið um að sameinast í bíla eða nota aðra fararmáta eins og mögulegt er. Hægt er að leggja bílum á malarstæði vestan við flugbrautina, eða í önnur bílastæði lengra frá, og ganga þaðan að brúnni. Óheimilt er að aka vélknúnum ökutækjum að brúnni.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan