Norræn sveitarfélög vinna saman gegn áreitni

Fulltrúar Akureyrarbæjar ásamt gestum að loknum fundi með bæjarstjóra.
Fulltrúar Akureyrarbæjar ásamt gestum að loknum fundi með bæjarstjóra.

Í vikunni tók samfélagssvið Akureyrarbæjar á móti gestum frá Noregi og Svíþjóð. Haldin var málstofa og vinnufundir í tengslum við norrænt samstarfsverkefni undir yfirskriftinni Kynferðisleg áreitni á vinnustöðum í heilbrigðisgeiranum.

Verkefnið, sem er fyrsta sinnar tegundar, spratt upp úr #metoo byltingunni og hófst fyrir um ári síðan. Auk Akureyrarbæjar taka þátt sveitarfélögin Eskilstuna í Svíþjóð og Arendal í Noregi. Miðstöð jafnréttismála við Háskólann í Agder í Noregi stýrir verkefninu og er það styrkt af Norrænu ráðherranefndinni í gegnum NIKK (Norræna upplýsingamiðstöðin um kynjajafnrétti).

Þolendur oftast ungar konur

Á málstofunni í vikunni voru kynntar niðurstöður rannsóknar á kynferðislegri áreitni sem verða opinberaðar í skýrslu á næstunni. Starfsfólk búsetusviðs og Öldrunarheimila Akureyrar var meðal þátttakenda, en rannsóknin var gerð með fókushópaviðtölum og spurningakönnun í öllum sveitarfélögunum.

Niðurstöður sýna meðal annars að ungar konur eru í mestri hættu að verða fyrir kynferðislegri áreitni og þjónustuþegar/skjólstæðingar eru í flestum tilvikum gerendur. Þá bendir til þess að þolmörkin séu sérstaklega há meðal heilbrigðisstarfsfólks, þetta sé talið „hluti af starfinu“, sem leiði meðal annars til þess að fáir tilkynna atvik.

Handbók væntanleg

Auk rannsóknarinnar hefur samstarfsverkefnið falið í sér viðamikla kortlagningu á laga- og regluverki, verklagi og viðbragðsáætlunum við kynferðislegri áreitni hjá sveitarfélögum og ríkinu. Eitt af markmiðum er að þróa handbók sem er ætlað að vera verkfæri sveitarfélaga til að koma í veg fyrir kynferðislega áreitni á vinnustöðum. Á vinnufundinum á Akureyri voru lögð drög að handbókinni og ráðstefnu sem haldin verður í Eskilstuna á næsta ári.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, ávarpaði og spjallaði við hópinn og ítrekaði mikilvægi þessa starfs.

Hér er hlekkur á kortlagningarskýrslu NIKK vegna verkefnisins. 

Frá málstofu um kynferðislega áreitni í heilbrigðisgeiranum

 

Dr. Edda Björk Þórðardóttir, nýdoktor í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, flutti erindi á málstofunni um kynbundna áreitni og ofbeldi.

 

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, var gestur á vinnufundi með fulltrúum sveitarfélaga í verkefninu.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan