Múrbrjótar hljóta grasrótarverðlaun KSÍ

Forráðamenn Múrbrjóta tóku við viðurkenningunni sl. föstudag. Haukur Snær Baldursson, þjálfari liðsi…
Forráðamenn Múrbrjóta tóku við viðurkenningunni sl. föstudag. Haukur Snær Baldursson, þjálfari liðsins, Þóroddur Hjaltalín frá KSÍ og stjórnarmennirnir Ólafur Torfason, forstöðumaður búsetuþjónustu geðfatlaðra, og Kolbeinn Aðalsteinsson skrifstofustjóri velferðarsviðs Akureyrarbæjar. Ljósmynd: Jón Óskar Ísleifsson.

Fótboltafélagið Múrbrjótar hlýtur grasrótarverðlaun Knattspyrnusambands Íslands vegna verkefnisins Fótbolti án fordóma.

Múrbrjótar bjóða einstaklingum sem takast á við geðræn og félagsleg vandamál upp á fótboltaæfingar og er markmiðið að auka þátttöku í hollri hreyfingu, efla samfélags- og félagsvitund og rjúfa einangrun fólks.

Verkefnið er á vegum búsetusviðs Akureyrarbæjar.

„Á ári eins og því síðasta, þar sem auknar líkur á félagslegri einangrun voru svo sannarlega fyrir hendi, þá sönnuðu Múrbrjótar enn frekar gildi sitt, með því að bjóða okkar viðkvæmasta hópi upp á tækifæri til að rjúfa þá einangrun með fótboltaæfingum sem opnar voru öllum. Fótboltafélagið Múrbrjótar er vel að grasrótarverðlaunum KSÍ komið,“ segir í frétt á heimasíðu KSÍ.

Múrbrjótar æfa einu sinni í viku allan ársins hring, í íþróttahúsi Naustaskóla á veturna og á KA-svæðinu á sumrin, og eru allir velkomnir. Þau sem vilja vita meira og jafnvel slást í hópinn er bent á Facebook-síðu félagsins.

Til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu, Múrbrjótar!

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan