Moltulundur í Hlíðarfjalli orðinn að veruleika

Hafnar eru tilraunir með moltu til gróðureflingar á rýru svæði yfir 500 metrum í kringum skíðasvæðið í Hlíðarfjalli. Girtur var af um hálfur hektari norðan við gönguskíðahúsið, þar sem moltu hefur verið dreift og gróðursettar hátt í 800 plöntur af Ilmbjörk.

Þessar aðgerðir eru liður í tilrauna- og átaksverkefni stjórnvalda sem var kynnt á vordögum og snýst um aukna nýtingu moltu í landbúnaði, skógrækt og landgræðslu á Norðurlandi með fjárhagslegum stuðningi frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Auk moltulundar var settur aukinn kraftur í gróðursetningu í Græna trefilinn ofan Akureyrar. Í sumar var átakshópur að störfum í átta vikur við útplöntun norðan Glerár. Svæðið sést á myndinni hér að neðan (nr. 1 og 9). Þangað fóru um 14.100 skógarplöntur í jörð í sumar af þeim 45.300 sem áætlað er að planta á svæðinu, þar á meðal er Rússalerki, Ilmbjörk og Stafafura.

Útplöntun í Græna trefilinn mun halda áfram næstu ár en áætlun gerir ráð fyrir að gróðursettar verði um 340.000 plöntur.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan