Gildagur og opnun í Listasafninu

Eftir langt hlé vegna Covid-19 verður loksins aftur Gildagur í Listagilinu á morgun, laugardaginn 29. maí. Þá verða opnaðar tvær nýjar sýningar í Listasafninu og einnig eru nýjar sýningar í Mjólkurbúðinni, Deiglunni og Kaktus.

Hefð er fyrir því að þegar opnaðar eru nýjar sýningar í Listasafninu þá sameinist listamenn, hönnuðir og verslanir í kring um að skapa hálfgerða karnivalstemningu með opnunum, viðburðum, tónlist og tilboðum í verslunum. Með þessu samstarfi hefur skapast afar skemmtileg stemning í Listagilinu, svokallaður Gildagur, þar sem fólk nýtur menningar og listar sem og að hitta mann og annan.

Sýningarnar sem opnaðar verða á Listasafninu eru annars vegar Takmarkanir þar sem 17 norðlenskir listamenn sýna og hins vegar Nýleg aðföng þar sem sýnd eru nýleg verk úr safneigninni. Nánar upplýsingar um Gildaginn og aðrar sýningar er að finna hér.

Vegna Gildagsins er Listagilið einungis opið gangandi vegfarendum milli kl. 14-17 (sjá mynd). Hægt verður að komast að bílastæðum efst og neðst í Listagilinu.

Gestir Gildaga eru beðnir að deila skemmtilegum myndum með því að nota myllumerkið #gildagur og jafnvel líka #listagilid og #hallóakureyri.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan