Listasumar á Akureyri sett á laugardag í Listagilinu

Listasumar 2017 verður sett kl. 14  laugardaginn 24. júní í Listagilinu og mun Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri setja dagskrána eftir að búið er að flagga Listasumarsfánanum í stóra fánastöng sem staðsett er ofarlega í Listagilinu. Við setninguna spilar Lúðrasveit Akureyrar undir stjórn Ellu Völu Árnadóttur, gluggað verður í dagskrána með því að hlýða á nokkur tóndæmi, listahópurinn RÖSK verður með gjörning og kynnir nýjar kynjaverur til sögunnar, Hesturinn Nigel Brie verður í Mjólkurbúðinni, gestalistamaður Gilfélagsins opnar sýningu í Deiglunni, listahópurinn RÓT verður að störfum og boðið verður upp á leiðsögn um Sumarsýningu Listasafnsins á Akureyri - Ketilhús.

Listasumri, sem stendur til 26. ágúst þegar Akureyrarvaka tekur við, er ekkert óviðkomandi og felur dagskráin í sér nánast allt á milli himins og jarðar.  Dagskráin er þannig uppsett að alla þriðjudaga eru viðburðir í Deiglunni, alla fimmtudaga eru viðburðir í menningarhúsinu Hofi, föstudaga eru kvikmyndasýningar á vegum Kvik-Yndis, félags áhugafólks um kvikmyndir og verða myndirnar sýndar á óhefðbundnum sýningarstöðum, Sundlaug Akureyrar verður með uppákomur á föstudögum, Sumartónleikar í Akureyrarkirkju verða á sunnudögum í júlí, sýningar í ART AK Amaro Gallerí og alla þriðjudaga er friðar- og kærleikshugleiðsla í Ketilhúsinu. Fyrir utan þessa föstu pósta eru fjölbreyttar sýningar og námskeið á virkum dögum og um helgar bæði í Deiglunni og í Rósenborg Möguleikamiðstöð. 

Listasumar hugar líka að ungviðinu og skipuleggur ýmsar smiðjur og námskeið í samvinnu við gott fólk, þar má nefna ritlistarsmiðjur, hjólabrettanámskeið, sirkussmiðju, listasmiðjur þar sem unnið er með plast og pappamassa og dansnámskeið.

 

Fylgist með Listasumri á listasumar.is, á Facebook og á Instagram

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan