Kynning á Cittaslow í Hrísey

Myndir: Helga Íris.
Myndir: Helga Íris.

Í gær var haldinn fundur með íbúum Hríseyjar þar sem hugmyndafræði Cittaslow-hreyfingarinnar var kynnt en Djúpavogshreppur hefur verið aðili að hreyfingunni frá 2013. Verkefnastjórn Brothættra byggða og hverfisráð Hríseyjar boðuðu til fundarins.

Á fundinn mættu 34 íbúar og hlýddu á Gauta Jóhannesson sveitarstjóra Djúpavogs og Grétu Mjöll Samúelsdóttur atvinnu- og menningarmálafulltrúa Djúpavogs kynna Cittaslow-hreyfinguna og hvað aðild að henni hefur gert fyrir Djúpavogshrepp.

Líflegar umræður voru eftir kynninguna og margar spurningar voru bornar upp. Hrísey hefur allt til að bera til að verða Cittaslow þorp t.d er Hríseyjaskóli Grænfána-skóli og var skólinn fyrsti skólinn á Norðurlandi til að fá þá vottun. Einnig eru mörg atriði sem eyjan hefur upp á að bjóða sem passa vel við þessa hugmyndafræði.

Eftir fundinn voru fundargestir beðnir að láta skoðun sína á framhaldinu í ljós með því að setja tannstöngul í glös merkt já og nei, þ.e.a.s. svara því hvort Cittaslow væri hugmyndafræði sem þau teldu að hentaði Hrísey. Úrslit "kosninganna" voru á þann veg að enginn tannstöngull kom í nei-glasið og má þvi ljóst vera ða fólki leist vel á hugmyndina og finnst Cittaslow passa vel fyrir Hrísey.

Hér má fræðast nánar um Cittaslow-hreyfinguna.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan